Ólafur Ragnar og Dorritt gengin í hjónaband

Davíð Oddsson heilsar Ólafi Ragnari og Dorrit í Borgarleikhúsinu í …
Davíð Oddsson heilsar Ólafi Ragnari og Dorrit í Borgarleikhúsinu í gær. mbl.is/Sverrir

Guðmundur Sophusson, sýslumaður í Hafnarfirði, gaf Ólaf Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff saman á Bessastöðum eftir hátíð sem haldin var í Borgarleikhúsinu í tilefni af 60 ára afmæli Ólafs Ragnars.

Sagt var frá þessu í fréttum Bylgjunnar í dag og staðfesti Stefán Lárus Stefánsson forsetaritari við mbl.is að athöfnin hefði farið fram á Bessastöðum í gærkvöldi. Sagði Stefán að athöfnin hefði verið látlaus og farið fram í Bessastaðastofu. Dætur forsetans voru viðstaddar og nánustu skyldmenni hans. Engin af skyldmennum Dorritar voru viðstödd.

Að athöfn lokinni snæddu brúðhjónin og gestirnir kvöldverð. Dorrit og Ólafur Ragnar dvöldu síðan á Bessastöðum í nótt.

Þau Ólafur Ragnar og Dorrit opinberuðu trúlofun sína árið 2000.

mbl.is