Árni Magnússon verður nýr félagsmálaráðherra

Árni Magnússon verður nýr félagsmálaráðherra og leysir Pál Pétursson af …
Árni Magnússon verður nýr félagsmálaráðherra og leysir Pál Pétursson af hólmi.

Árni Magnússon kemur í stað Páls Péturssonar sem félagsmálaráðherra, að því er Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, greindi frá fyrir stundu. Halldór segist hafa gert tillögu um Árna sem nýjan félagsmálaráðherra. Aðrar breytingar verða ekki gerðar á ráðherraliði Framsóknarflokks. Árni segir það hafa komið sér ánægjulega á óvart að vera boðinn ráðherrastóllinn.

Halldór segir flokkinn treysta Árna vel til starfans. „Hann er fulltrúi nýrrar kynslóðar. Við höfum lagt mikla áherslu á unga fólkið og við teljum hann vera sérstakan fulltrúa unga fólksins. Hann hefur mikla reynslu. Hann hefur verið framkvæmdastjóri flokksins með mjög góðum árangri. Hann hefur unnið mikið að sveitarstjórnarmálum. Hann hefur verið aðstoðarmaður bæði í utanríkisráðuneytinu og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Þannig að hann kemur með mikla reynslu inn í okkar hóp,“ sagði Halldór í kvöld.

Þegar Halldór var spurður hvort einhugur hefði verið um skipan Árna sagði hann: „Já, það var mjög góður hugur um þetta. Það voru aðrir sem fengu atkvæði en það var mikill meirihluti sem studdi mína tillögu.“

Árni sagði í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld að þetta hafa komið sér ánægjulega á óvart. Hann segist muni fylgja áætlunum sem framsóknarmenn kynntu í kosningabaráttunni um breytingar á almenna íbúðarlánakerfinu og hækka lánshlutfall. Þá sagði hann málefni sveitarfélaga og fatlaðra einnig vera brýn.

Halldór Ásgrímsson verður utanríkisráðherra til 15. september á næsta ári þegar hann tekur við embætti forsætisráðherra af Davíð Oddssyni. Guðni Ágústsson verður áfram landbúnaðarráðherra, Jón Kristjánsson verður heilbrigðis- og tryggingaráðherra, Siv Friðleifsdóttir verður umhverfisráðherra til 15. september á næsta ári og Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Árni Magnússon er fæddur 1965. Hann lauk Samvinnuskólaprófi frá Bifröst 1983 og hefur einnig tekið ýmis námskeið í rekstrarfræði, stjórnun og stjórnmálafræði frá HÍ og HA. Hann hefur unnið sem frétta-, blaða- og dagskrárgerðarmaður í útvarpi og sjónvarpi, á blöðum og tímaritum frá 1987-1994. Hann var aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá 1995-1999, aðstoðarmaður utanríkisráðherra frá 1999-2001 og framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins frá 2001. Hann var í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður og var kjörinn á þing nú í vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert