Biðu í fjóra tíma rétt við heimili sitt

Sigríður og Aðalbjörg bíða eftir betra veðri á Hótel Héraði.
Sigríður og Aðalbjörg bíða eftir betra veðri á Hótel Héraði. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

„Þessi glórulausa stórhríð skall á eins og hendi væri veifað, ég hef aldrei nokkurn tímann á ævinni séð annað eins. Það var algjört logn, svo allt í einu voru komnir þessir 25–27 metrar á sekúndu,“ segir Sigríður Sigurðardóttir sem sat föst ásamt vinkonu sinni Aðalbjörgu Heiði Björgvinsdóttur í bíl um 50 metra að heiman í fjóra tíma í nótt.

„Við vorum að keyra frá Egilsstöðum yfir í Fellabæ, þetta er um kílómetri. Svo allt í einu skellur á þessi glórulausi blindbylur.“ Þær festust um þrjúleytið í nótt og klukkan sjö í morgun kom björgunarsveitin þeim til bjargar á snjóbíl. „Þá vorum við nú orðnar frekar kaldar. Við vorum með eitt vettlingapar og eina úlpu, það var allt sem við vorum með. Ég var í jakka en Aðalbjörg hafði gleymt úlpunni í bílnum fyrir einhverja rælni. Bíllinn gekk illa, eftir klukkutíma hætti hann að blása heitu lofti og fór að blása köldu. Þannig að það var komið niður undir frostmark í bílnum.“

Stæðilegir björgunarmenn fuku fram og til baka

Sigríður segir að þær hafi fengið skýr tilmæli um það frá lögreglu að bíða rólegar í bílnum. „Við erum báðar úr sveitinni og vissum að ef við hefðum farið út úr bílnum værum við ekki hér. Við sáum það líka þegar mennirnir úr björgunarsveitinni komu, stórir og stæðilegir karlmenn, þeir fuku þarna fram og til baka.“

Farið var með vinkonurnar á Hótel Hérað þar sem þær biðu þess að komast heim. Sigríður segir að björgunarsveitarmennirnir hafi verið mjög almennilegir og eins vildi hún koma þökkum til starfsmanna hótelsins. Þar biðu einnig fjórir strákar sem sátu fastir í bíl rétt hjá Sigríði og Aðalbjörgu Heiði. „Einn strákurinn í þeim bíl var bara í stuttermabol. Þeir voru einnig búnir að bíða í fjóra tíma.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert