Forseti Íslands í stjórn Special Olympics

Dorrit Moussaieff ásamt tveimur af íslensku keppendunum á heimsleikunum á …
Dorrit Moussaieff ásamt tveimur af íslensku keppendunum á heimsleikunum á Írlandi í fyrra.

Stjórn Special Olympics, sem skipuleggur Heimsleika þroskaheftra og seinfærra, bauð nýlega Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, að taka sæti í stjórninni og hefur Ólafur Ragnar ákveðið að þiggja það boð. Er forseti Íslands fyrsti þjóðhöfðinginn sem boðið er að taka sæti í stjórninni.

Special Olympics voru stofnuð að frumkvæði bandarísku Kennedy-fjölskyldunnar árið 1968 og hafði Eunice Kennedy Schriver, systir John F. Kennedys, Bandaríkjaforseta, forustu í þeim efnum. Fjölskylda Eunice Kennedy Schriver, þar á meðal Maria Schriver og eiginmaður hennar, Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri í Kalíforníu, hafa síðan gert samtökin að alþjóðlegri hreyfingu sem nú er talin ein áhrifaríkasta íþrótta- og mannúðarhreyfing í heimi. Þúsundir keppenda frá rúmlega 180 löndum sóttu heimsleikana á Írlandi á síðasta ári en íslensku forsetahjónin voru heiðursgestir þar.

Íþróttasamband fatlaðra hefur skipulagt þátttöku Íslands á Heimsleikum þroskaheftra og seinfærra og tók fjöldi Íslendinga þátt í leikunum á Írlandi og einnig á leikunum í Bandaríkjunum 1999.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka