Forsetinn líklega ekki til Danmerkur

Ólafur Ragnar Grímsson var viðstaddur frumsýningu á Don Kíkóta í …
Ólafur Ragnar Grímsson var viðstaddur frumsýningu á Don Kíkóta í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. Hér heilsar hann Halldóru Geirharðsdóttur, sem leikur Don Kíkóta. mbl.is/ÞÖK

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fór ekki með áætlunarflugi til Kaupmannahafnar í morgun og verður því vart viðstaddur konunglegt brúðkaup í Kaupmannahöfn í dag, eins og hann hafði áður ráðgert. Að sögn lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli hefur forsetanum ekki verið fylgt út í flugvél í morgun.

„Við höfum ekki séð hann,“ sagði varðstjóri á vakt og bætti við að það væri ætíð svo að þegar forseti færi til útlanda með flugi, fylgdu lögreglumenn honum í flugvélina. Forsetinn breytti óvænt ferðaáætlun sinni í vikunni og kom til Íslands frá Mexíkó á miðvikudag en áður hafði verið áætlað að Ólafur Ragnar færi beint frá Mexíkó til Danmerkur.

Brúðkaupið hefst klukkan 14 að íslenskum tíma. Dorrit Moussaieff, eiginkona Ólafs Ragnars, fór til Danmerkur í gær og var viðstödd hátíðarsýningu í Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn í gærkvöldi í tilefni af brúðkaupinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert