Fjölmiðlafrumvarp og þjóðaratkvæðagreiðslufrumvarp til nefndar

Atkvæði greidd á Alþingi í dag.
Atkvæði greidd á Alþingi í dag. mbl.is/Jim Smart

Nýju fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar var í dag vísað til annarrar umræðu á Alþingi að lokinni fyrstu umræðu. Í atkvæðagreiðslu, sem fram fór með nafnakalli um hvort vísa ætti frumvarpinu áfram, greiddu 29 atkvæði með því en 25 þingmenn stjórnarandstöðunnar greiddu ekki atkvæði. Þá fór einnig fram fyrsta umræða um frumvarp stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum en samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar verða þau lög nú afnumin. Báðum frumvörpunum var vísað til allsherjarnefndar þingsins.

Hvorki Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, né Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, svöruðu andsvörum eftir ræður sem þeir fluttu um fjölmiðlafrumvarp í dag. Þeir segja ástæðuna vera þá að andsvörin hafi ekki varðað beint efni málsins heldur miklu frekar það mál sem fjalla átti um síðar á þingfundinum, það er þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin.

Össur sagði, að spurningin sem Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi komið fram með í andsvari við sig hafi ekki varðað beint efni málsins, miklu fremur það mál sem síðar væri á dagskrá. „Þar lá fyrir að ég ætlaði að reifa þann efnisþátt, þannig að ég sá ekki ástæðu til að svara þessu á þeim tíma," sagði Össur.

Steingrímur J. Sigfússon sagði aðspurður um þetta: „Við skipulögðum umræðuna af okkur hálfu þannig að við myndum bara tala, formenn flokkanna; við myndum hafa þessa umræðu mjög hnitmiðaða og afmarkaða, auk þess sem allir tilburðir sjálfstæðismanna í andsvörunum voru að drepa þessu máli algjörlega á dreif."

mbl.is