Bill Clinton hittir forseta og forsætisráðherra

Bill Clinton.
Bill Clinton. AP

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, mun hitta Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, Davíð Oddsson, forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra meðan á heimsókn hans hingað til lands á þriðjudag stendur.

Bill Clinton kemur í einkaerindum á þriðjudagsmorgun, og dvelur hér á landi fram á kvöld. Skv. upplýsingum frá sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi eru tímasetningar á fundum Clintons með íslenskum ráðamönnum ekki gefnar upp opinberlega, bæði öryggis hans vegna og vegna þess að þær geti breyst með skömmum fyrirvara.

Bandarísk þingnefnd sem í er m.a. Hillary Clinton, eiginkona Bill Clintons, kemur einnig hingað til lands á þriðjudagsmorgun í þeim erindagjörðum að kynna sér orkumál. Í nefndinni eru John McCain - sem fer fyrir nefndinni, Hillary Rodham Clinton, Lindsey Graham, John Sununu og Susan Collins. Nefndarmenn fara í Bláa lónið og snæða hádegisverð í boði Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra. Þeir fá því næst um klukkustundar langa kynningu frá Íslenskri nýorku um notkun vetnis sem orkugjafa.

Nefndarmeðlimir munu ekki stoppa lengi hér á landi, og munu fara af landi brott eftir um fjögurra klukkustunda dvöl.

Bill og Hillary dvelja fram á kvöld

Hillary Clinton mun þó dvelja lengur hér á landi, eftir nefndarstörfin mun hún hitta eiginmann sinn, Bill Clinton, og eyða því sem eftir er af deginum með honum. Skv. upplýsingum frá sendirráðinu munu hjónin svo fljúga vestur um haf um kvöldið.

Nefndin hefur verið á ferð um Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin til að kynna sér orkumál, og kemur hún væntanlega hingað til lands frá Noregi. Heimsóknin til Íslands er sú síðasta í röðinni áður en nefndin snýr aftur til Bandaríkjanna.

Ríkislögreglustjóri mun gæta öryggis þingnefndarinnar hér á landi í samvinnu við bandaríska sendiráðið, en Clinton-hjónin eru auk þess hvort með sína sveitina af lífvörðum frá leyniþjónustu Bandaríkjanna sem munu fylgja þeim hér á landi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert