Stefán Már Stefánsson: Vegið að undirstöðum Hæstaréttar

Stefán Már Stefánsson prófessor, sem Hæstiréttur mat annan tveggja sem hæfastir væru til að gegna embætti hæstaréttardómara, sagðist óska Jóni Steinari til hamingju með embættið og óska honum velfarnaðar í starfi. Hins vegar leyndi hann því ekki og það væri honum efst í huga að það væri vegið að undirstöðum Hæstaréttar með þessu.

Stefán sagði að samkvæmt lögum ætti Hæstiréttur að gefa álit í þessum efnum. Álitið væri mjög ítarlegt og rökstutt og því fyndist honum skjóta skökku við að hægt væri að hnekkja því áliti með undirskriftum eða með því að taka einn þátt út úr.

Hæstiréttur hefði látið koma skýrt fram að það mætti ekki gera, þar sem þarna væri um að ræða heildarmat Hæstaréttar á öllum þáttunum varðandi hæfni umsækjenda. "Niðurstaðan er auðvitað sú að mér finnst forsendurnar sem ráðherrann gefur sér afar veikar," sagði Stefán Már.

Hann sagðist líta þannig á að álit Hæstaréttar stæðist þar til því hæfnismati yrði hnekkt af dómstólum. Ráðherra réði auðvitað formlega hvern hann skipaði, en hann bryti lög af því að hann ætti að ráða hæfasta umsækjandann og hann bryti líka jafnréttislög þar sem hann tæki umsækjanda framyfir sem væri neðar í hæfnismati en kona sem væri á meðal umsækjenda.

Stefán Már sagði að það væri á lágu plani að halda því fram að Hæstiréttur ynni ekki verk sitt eftir hlutlægum sjónarmiðum. Auðvitað væri það þannig að æðsti dómstóll þjóðarinnar ynni verk sitt af alúð.

Aðspurður hvort hann myndi leita réttar síns sagði hann að það væri önnur saga. "Það snýr að mér persónulega. Auðvitað tel ég að á mér sé brotinn réttur, eins og komið hefur fram í máli mínu. Það sem mig varðar þó miklu meiru er það að mér finnst vegið að hlutleysi Hæstaréttar. Hæstiréttur hefur þetta umsagnarvald vegna þess að hann á að vera hlutlaus gagnvart öðrum handhöfum ríkisvaldsins. Í öllum löndum sem ég þekki er kerfi í þessa átt og það kerfi er yfirleitt ítarlegra en hjá okkur."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert