Næsta stóriðja verði á Norðurlandi vestra

Skýrsla nefndar um atvinnu- og byggðamál í Norðvesturkjördæmi verður kynnt á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Borgarnesi í dag, með yfir 50 tillögum til aðgerða. Þar er m.a. lagt til að ríkisstjórnin ákveði formlega að næsta uppbygging stóriðju erlendra fyrirtækja verði á Norðurlandi vestra og virkjanleg orka svæðisins verði nýtt til atvinnuuppbyggingar þar.

Ríkisstjórnin leggi til fjármuni í undirbúning iðjuvera og fjárfestum verði beint í Norðvesturkjördæmið.

Nefndin var skipuð að frumkvæði og hvatningu Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, sem fengið hefur skýrsluna í hendur. Í nefndinni sátu einkum sveitarstjórnarmenn úr röðum framsóknarmanna í kjördæminu. Var henni m.a. ætlað að skilgreina aðgerðir sem geta stöðvað þá fólksfækkun sem hefur orðið í Norðvesturkjördæmi á síðustu árum, einkum Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.

Ísafjörður verði byggðakjarni

Af fleiri tillögum nefndarinnar má nefna að hið opinbera stuðli að stofnun fyrirtækjaklasa á Vesturlandi í samræmi við sérhæfingu svæðisins og Ísafjörður verði skilgreindur sem byggðakjarni þannig að stofnanir og ráðuneyti taki tillit til þess. Lagðar eru til frekari rannsóknir á fiskeldi á Vestfjörðum, leitað verði að hráefnum fyrir líftækniiðnað, háskóli verði stofnaður á Ísafirði, ungmennafangelsi verið stofnað á Núpi í Dýrafirði, stofnað verði nýsköpunar- og frumkvöðlasetur á Sauðárkróki, Norðurland vestra verði skilgreint sem úrvinnslusvæði landbúnaðarafurða og starfsemi Orkubús Vestfjarða og RARIK á Vesturlandi og Norðurlandi vestra verði sameinuð.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert