Rauði krossinn: Viðhorf ungs fólks gagnvart innflytjendum að harðna

Niðurstöður rannsóknar sem Rannsóknir og greining gerðu fyrir Rauða kross Íslands sýna töluverða fjölgun ungs fólks sem hefur neikvætt viðhorf til nýbúa. Meðal annars hefur þeim ungmennum fækkað sem telja að menning sem fylgi nýbúum hafi jákvæð áhrif á samfélagið en hinum sem telja að áhrifin séu neikvæð hefur fjölgað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum í dag.

Talsverður munur er á svörum kynjanna. Þannig segjast 23 prósent stráka sammála því að áhrif nýbúa séu jákvæð en 31 prósent stelpna. Stærsti hópurinn er óviss en 34 prósent stráka segja að nýbúum fylgi neikvæð menningaráhrif og 20 prósent stelpna eru sömu skoðunar.

„Þetta eru sláandi niðurstöður,“ segir Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. „Við sjáum dæmi um jákvæð áhrif útlendinga víða í samfélaginu – meðal annars í menningu, listum og atvinnulífi– en á sama tíma virðist afstaða ungs fólks gagnvart útlendingum vera að harðna.“

Rannsóknin, sem var gerð árið 2003, tekur til níundu og tíundu bekkja grunnskóla um allt land en í þeim bekkjum eru krakkar á aldrinum í kringum fjórtán til sextán ára. Þegar niðurstöður frá 2003 eru bornar saman við niðurstöður úr sams konar könnun árið 2000 og 1997 kemur í ljós að afstaða gagnvart innflytjendum er að harðna umtalsvert.

Enginn munur er á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar en efasemdir um jákvæð áhrif nýbýa aukast eftir því sem áhættuhegðun eykst og félagslegar aðstæður versna. Hins vegar er athyglisvert að þeim ungmennum sem gengur vel í skóla og hafa jákvæð viðhorf til námsins eru jákvæðari gagnvart nýbúum en þeim sem verr gengur.

Nánar verður skýrt frá niðurstöðum rannsóknarinnar á rannsóknaþingi um málefni innflytjenda á morgun, fimmtudag, í Norræna húsinu. Þar verður einnig birt yfirlit sem Rauði krossinn hefur tekið saman um á sjöunda tug skýrslna sem gerðar hafa verið um innflytjendamál á Íslandi. Þingið hefst kl. 9 og stendur til 16.

Sjá dagskrá þingsins

mbl.is