Hryðjuverkin í Lundúnum kalla ekki á sértækar aðgerðir á Keflavíkurflugvelli

Hryðjuverkin í Lundúnum í fyrradag kalla ekki á sértækar öryggisaðgerðir á sviði flugverndar á Keflavíkurflugvelli, að sögn Jóhanns R. Benediktssonar sýslumanns. Hins vegar hljóti atburðurinn að leiða til þess að upplýsingaskipti milli ríkja muni aukast að mun.

"Og afleiðingarnar af voðaverkum sem þessum hljóta að verða þær að stofnanir sem standa í baráttu gegn hryðjuverkum munu fá aukið vægi og fjármagn," segir Jóhann.

Hann minnir á að frá hryðjuverkunum í New York 11. september 2001 hafi orðið gífurlegar breytingar á samskiptum milli leyniþjónusta, lögreglu og annarra aðila sem fást við öryggisgæslu víða um heim. "Þessar miklu breytingar hafa líka orðið í samskiptum milli ríkja," segir hann. "Þá hefur samstarf milli ólíkra deilda og þátta á sviði öryggismála verið eflt mikið til að ná heildstætt utan um hlutina. Slík þróun er stöðugt í gangi og sagan hefur sýnt að menn draga ákveðinn lærdóm af nýjum hryðjuverkum. Venjulega felst sá lærdómur í einhvers konar breytingu í öryggisumhverfinu. Slíkar breytingar þurfa hins vegar ekki að birtast almenningi í hvert sinn. Þótt almenningur verði ekki var við slíkar breytingar á Keflavíkurflugvelli er ekki þar með sagt að það hafi ekki átt sér stað þróun í því hvernig við verndum borgara og stuðlum að bættu öryggi," segir Jóhann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert