Íslendingar hlutfallslega næstflestir á tind Everest

Hlutfallslega margir Íslendingar hafa komist á tind Everest.
Hlutfallslega margir Íslendingar hafa komist á tind Everest. AP

Margir hafa gaman að því að leika sér að tölum og við slíka útreikninga kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós. Breska blaðið Daily Record upplýsir til dæmis í dag, að Íslendingar séu í öðru sæti á eftir Nepalbúum þegar reiknað er út hve margir hafi hlutfallslega komist á tind Everest, hæsta fjalls heims.

Þegar reiknað er út hve margir frá viðkomandi þjóðum hafi komist á tind Everers eru Nepalbúar flestir, eða 19,2217 af hverjum milljón íbúum. Það kemur ekki á óvart enda fylgja Sherpar frá Nepal flestum fjallgönguhópum á tindinn. Íslendingar eru í öðru sæti með 10,11 á Everesttindi af hverri milljón. Slóvenar eru í þriðja sæti með 6,96171, þá Nýsjálendingar, 5,45229, Lúxemborgarar, 4,2683 og Norðmenn eru í sjötta sæti með 2,17723. Á eftir þeim koma Svisslendingar, 2,00294, Georgíumenn, 1,92431, Austurríkismenn, 1,71045 og Kasakstanbúar með 1,38285.

Fjórir Íslendingar hafa komist á tind Everest. Árið 1997 unnu Björn Ólafsson, Einar Stefánsson og Hallgrímur Magnússon þetta afrek og Haraldur Örn Ólafsson lék það eftir árið 2002.

mbl.is