„Nú erum við ánægðir Húsvíkingar og Norðlendingar allir"

Fagnað á Gamla Bauk á Húsavík. Örlygur Hnefill Jónsson er …
Fagnað á Gamla Bauk á Húsavík. Örlygur Hnefill Jónsson er lengst til vinstri. mbl.is/Hafþór

„Nú erum við ánægðir, Húsvíkingar, og Norðlendingar allir," sagði Örlygur Hnefill Jónsson, lögmaður og varaþingmaður, eftir að fréttir bárust af því um klukkan 15 að bandaríska álfélagið Alcoa hefði ákveðið að hefja ítarlega könnun á hagkvæmni þess að reisa nýtt, 250.000 tonna álver á Bakka við Húsavík.

Á milli 100 og 200 manns voru í Gamla Bauk á Húsavík og biðu frétta frá New York, þar sem skrifað var undir samning um hagkvæmniathugun á álveri á Bakka.

„Þetta skiptir gríðarlegu máli fyrir allt svæðið," sagði Örlygur Hnefill, sem tók þátt í að skipuleggja álversvaktina á Gamla Bauk. „Hér hefur auðvitað verið hálfgert undanhald og við fögnum því að þessar miklu orkuauðlindir, sem eru hér í næsta nágrenni bæjarins, verði nýttar. Það hefur verið mikil samstaða í þessu máli hér, sem hefur sennilega skipt máli varðandi þessa ákvörðun. Það má segja að þessi niðurstaða muni einnig koma sér vel fyrir Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið því þar skapast fjöldi starfa ef af þessu verður."

Verði af byggingu álversins á Bakka verður þar notað rafmagn sem að mestu verður framleitt með jarðvarmaorku. Örlygur sagði að samkvæmt svari, sem hann hefði fengið við fyrirspurn á Alþingi, væri hægt að virkja um 600 MW orku á Kröflusvæðinu, í Bjarnarflagi, á Þeistareykjum og í Gjástykki. Það jafngildi orkunni frá Kárahnjúkavirkjun.

„Það skiptir líka máli, að við teljum að þetta yrði framkvæmd sem yrði meiri sátt um en vatnsaflsvirkjanir, sem hafa átt undir högg að sækja. Sú orka sem er næst okkur, á Þeistareykjum, er í 25-30 km fjarlægð frá Húsavík. Það þýðir líka að allar línulagnir verða á svæðum sem eiga ekki að spilla náttúrunni," sagði Örlygur Hnefill.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert