Segir Alcoa ekki framleiða hergögn

Alcoa Fjarðaál hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna viðtals í NFS í gær við Andra Snæ Magnason, rithöfund, og segir að það sé rangt, sem Andri Már hafi þar sagt, að Alcoa framleiði hergögn, þar á meðal Tomahawk eldflaugarnar og Bradley skriðdreka.

Yfirlýsing Alcoa Fjarðaáls er eftirfarandi:

    Vegna ranghermis og ósanninda Andra Snæs Magnasonar rithöfundar í fréttaviðtali á NFS sunnudaginn 19. mars sl. vill Alcoa Fjarðaál taka fram eftirfarandi:

    Alcoa er leiðandi álframleiðandi í heiminum. Ál frá Alcoa er notað til framleiðslu á ótal hlutum til notkunar í daglegu lífi, stórra sem smárra. Þar má nefna álpappír til heimilisnota, lyfjaumbúðir, gosdósir, alls kyns tæki til byggingaiðnaðar, íhluti í bifreiðar, heimilistæki og fleira.

    Álhlutir frá Alcoa eru einnig notaðir af öðrum við framleiðslu nánast allra farartækja í veröldinni, svo sem ferja, flutninga- og fjölskyldubíla, flugvéla, geimflauga og til hergagnaframleiðslu, m.a. í Bandaríkjunum, Rússlandi og í V-Evrópu. Alcoa framleiðir t.d. íhluti í bifreiðar fyrir Ford og Ferrari, en er samt ekki bifreiðaframleiðandi. Alcoa framleiðir einstaka hluti úr áli sem m.a. eru notaðir við smíði á Tomahawk flugskeytinu, sbr. frétt um það frá 1. desember 2005 á vefsíðu fyrirtækisins, www.alcoa.com.

    Andri Snær heldur því m.a. fram í fyrrnefndu viðtali á NFS að Alcoa „...framleiði til dæmis Tomahawk eldflaugarnar, Bradley skriðdreka sem eru svona allra ljótustu djöflarnir sem við sjáum í Íraksmyndunum. Við erum hluti af mjög stóru og grimmu samhengi sem að mörgum gæti brugðið við að lesa um.”

    Þetta er rangt. Alcoa rekur mjög meðvitaða stefnu um upplýsingagjöf. Fyrirtækið hefur ekkert að fela. Það greinir reglubundið frá einstökum atriðum fjölþættrar starfsemi í fréttatilkynningum, hvort heldur það eru samningar við framleiðendur bifreiða, flugvéla eða hergagna eða annað.

    Með sömu rökum og Andri Snær hefur notað má halda því fram að allir þeir framleiðendur plasts, stáls, gúmmís, hjólbarða, véla og vélahluta, sem selja vörur sínar til vopnaframleiðslu séu þar með vopnaframleiðendur. Slíkt er fjarstæðukennt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert