Varði deginum í að eyða tölvupóstum

Jón Gerald Sullenberger, upphafsmaður Baugsmálsins, segir að í maí 2002 hafi Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, enn getað samið við sig um óuppgerð ágreiningsmál.

„Jón Ásgeir hefði svo léttilega getað sagt við Tryggva Jónsson að hann yrði bara að fara til Flórída og klára þessi mál með mér, en þeir kusu að fara aðra leið,“ segir Jón Gerald m.a. í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið, sem birtist í dag og á morgun.

Jón Gerald segir að í sínum huga hafi aldrei komið til álita að hætta við að leggja fram ákæru, eftir að hann hafði gert upp hug sinn í þeim efnum í júní 2002.

„Þegar ég var á leiðinni út á flugvöll, í byrjun september 2002, eftir að hafa lagt fram kæru, fékk ég upphringingu, þar sem sagt var við mig, að ef ég hætti við allt saman, drægi kæruna til baka og segði að þetta hefði allt verið á misskilningi byggt, þá biði mín feitur tékki upp á tvær milljónir dollara. Ég sagði að þótt tilboðið hefði hljóðað upp á tíu milljónir dollara, þá hefði það engu breytt,“ segir Jón Gerald.

Pósti markvisst eytt

Í viðtalinu greinir Jón Gerald frá því að hann hafi haft áhyggjur af því haustið 2002 að Baugsmenn væru búnir að taka til í bókhaldinu hjá sér, því hann hafði sagt þeim að hann ætlaði í mál við þá. Hann lýsir því hvernig hann telur að tölvupósti þeirra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar hafi markvisst verið eytt haustið 2002:

„Vinur minn hafði sem sagt varið deginum í að eyða öllum tölvupóstum Jóns Ásgeirs og Tryggva.

Það kom nefnilega í ljós í lögreglurannsókninni, að allur tölvupóstur starfsmanna Baugs var geymdur í höfuðstöðvum Baugs, nema tölvupóstur forstjórans, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, og aðstoðarforstjórans, Tryggva Jónssonar. Hann var vistaður hjá lítilli tölvunetþjónustu í Síðumúlanum... Ef menn eru með hreint borð og hafa ekkert að fela, hvers vegna þurfti þá að verja heilum degi í að eyða póstum þessara manna?“ spyr Jón Gerald.

Jón Gerald lýsir því einnig hvernig þeir feðgar Jón Ásgeir og Jóhannes Jónsson reyndu, með aðstoð Tryggva Jónssonar, að fá hann til þess að samþykkja að flytja skrásetningu bátsins Thee Viking yfir á félag feðganna, Miramar, skrásett á Bahamaeyjum, en því hafi hann alfarið hafnað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert