Yfirlýsing frá Hreini Loftssyni, stjórnarformanni Baugs Group

Eftirfarandi yfirlýsing hefur borist frá Hreini Loftssyni, stjórnarformanni Baugs Group hf.

„Vegna viðtals við Jón Gerald Sullenberger í Morgunblaðinu í morgun, þykir rétt að ítreka, að ástæða þess að gengið var til samkomulags við hann um niðurfellingu málaferla, var, að skapa félaginu starfsfrið, einkum vegna viðskipta erlendis, en óttast var að Jón Gerald léti verða af hótunum um, að dreifa ósannindum um félagið og einstaklinga sem því tengjast til erlendra fjölmiðla.

Þessi ákvörðun byggðist á hagsmunamati af hálfu félagsins, en fól ekki í sér viðurkenningu á réttmæti kröfugerðar hans. Lögmenn félagsins og Jón Ásgeir Jóhannesson, efuðust um réttmæti slíks samkomulags þar sem það hvíldi á orðheldni viðsemjandans. Samningaleiðin var valin þar sem kröftum félagsins var talið betur varið í uppbyggilegri verkefni en að elta ólar við dylgjur og óhróður af því tagi, sem getur að líta í Morgunblaðinu í dag. Þetta hefur áður komið fram af hálfu félagsins m.a. í yfirlýsingu sem birtist í fjölmiðlum hinn 27. september 2005," að því er segir í yfirlýsingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert