Þróunarsamvinnustofnun byggir framhaldsskóla í Malaví

Framkvæmdir við fyrsta framhaldsskólann sem Þróunarsamvinnustofnun byggir í Malaví í samvinnu við heimamenn eru hafnar í grennd við fiskimannaþorpið Malambo. Skólinn á að þjóna um það bil fjórtán nærliggjandi þorpum. Stefnt er að því að skólinn verði fokheldur fyrir upphaf regntímans, um mánaðamótin nóvember og desember, en framkvæmdum á að ljúka um áramót.

Skólinn heitir Nankhwali Community Day Secondary School og hefur verið án húsnæðis um hríð, að því er segir í fréttatilkynningu.

„Skólinn hafði yfir að ráða einni skólastofu en húsnæðið var í eigu klausturs á staðnum,” segir Stella Samúelsdóttir starfsmaður ÞSSÍ sem hefur yfirumsjón með byggingaframkvæmdunum. „Klaustrið vildi endurheimta aðstöðuna og þar af leiðandi var skólinn orðinn algjörlega húsnæðislaus,” samkvæmt tilkynningu.

Að sögn Stellu eru aðrir framhaldsskólar í margra kílómetra fjarlægð. Hún segir að vegna skorts á aðstöðu hafi nemendur aðeins verið um eitt hundrað talsins og aðeins kennt í tveimur fyrstu bekkjum framhaldskólans.

„Þróunarsamvinnustofnun er núna að byggja tvær skólablokkir með samtals fjórum kennslustofum, einni stofu fyrir hvern árgang, sem tekur um eða yfir fimmtíu unglinga,” segir hún. „Einnig verður aðstaða í nýja skólanum fyrir bókasafn, sérstök stjórnunarbygging verður á staðnum, salernisaðstaða að sjálfsögðu, auk þess sem byggð verða tvö kennarahús og grafinn brunnur við skólann. Þá er verið að smíða húsgögn fyrir skólann fyrir íslenskt fé.”

Stella segir að nú sé Þróunarsamvinnustofnun í fyrsta sinn að byggja með nýrri umhverfisvænni aðferð með kubbum úr sementsblöndu sem látnir eru þorna í sólinni.

„Múrsteina aðferðin hefur verið notuð hingað til með tilheyrandi brennslu múrsteina sem kallar á mikinn eldivið. Sú aðferð er þar af leiðandi ekki eins umhverfisvæn og auk þess er að farið að bera á skorti á trjám hér í Malaví. Komin er góð reynsla á þessa nýju aðferð á síðustu árum og því munum við framvegis í skólaverkefnum byggja eftir þessari aðferð,” segir Stella, í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert