Leitað vegna ætlaðra brota á höfundarrétti

eftir Brján Jónasson

brjann@mbl.is

FULLTRÚAR Sýslumannsins í Reykjavík öfluðu gagna hjá tölvufyrirtækinu EJS og Olíufélaginu ESSO að beiðni Landsteina strengs (LS), sl. fimmtudag, vegna hugsanlegs brots á höfundarréttarlögum. Ekki er talið að fyrirtækin tvö hafi brotið gegn lögunum, heldur höfðu þau undir höndum hugbúnað frá þriðja aðila sem talið er að geti verið byggður á hugbúnaði LS.

Tekist er á um hugbúnað sem tengir saman kassakerfi á bensínstöðvum Olíufélagsins og bensíndælur félagsins. Hugbúnaðurinn er hannaður af fyrirtækinu KLS. EJS á 20% í því fyrirtæki og seldi Olíufélaginu umræddan hugbúnað. LS óskaði eftir því með gerðarbeiðni að Héraðsdómur Reykjavíkur fæli sýslumanni að leita gagna vegna mögulegra brota KLS á höfundarrétti, og féllst dómurinn á slíka leit.

Gunnlaugur Sigmundsson, stjórnarformaður LS, segir málið nokkuð flókið. Forsagan sé sú að starfsmenn sem unnu hjá EJS hönnuðu hugbúnað sem tengir saman kassakerfi og dælur. Starfsmennirnir og hugbúnaðurinn fóru yfir til fyrirtækisins Hugar þegar EJS keypti fyrirtækið. Kögun keypti svo Hug og starfsmennirnir og búnaðurinn fóru yfir til LS, sem var tengt Kögun.

"Hluti af mannskapnum sagði upp skömmu síðar, þar á meðal höfundur þessa hugbúnaðar," segir Gunnlaugur. Hann segir að höfundurinn hafi unnið fyrir LS sem verktaki eftir það og því haft aðgang að hugbúnaðinum. "Svo dúkkaði allt í einu upp í sölu á Íslandi búnaður frá fyrirtækinu KLS, sem mér skilst að hafi starfsstöð í Tékklandi. Mönnum þykir þessi hugbúnaður ótrúlega líkur því sem búið var að hanna áður."

Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri EJS, dregur það stórlega í efa að umræddur hugbúnaður byggist á hugbúnaði LS. "Ég held að það sé nánast útilokað að svo sé, en ég hef engar leiðir til að sannreyna það á einn eða annan hátt."

Þau gögn sem aflað var af sýslumanni verða nú geymd hjá honum í 14 daga frá því þeirra var aflað og á þeim tíma geta lögmenn EJS reynt að hnekkja úrskurði héraðsdóms sem leyfir öflun gagnanna. Nú er þó önnur staða uppi en þegar beðið var um gagnaöflunina, segir Gunnlaugur hjá LS, aðilar ætli sér nú að ná samkomulagi í málinu svo ekki þurfi að nota gögnin sem aflað var.

Fyrirtækin í eigu sömu aðila

Athygli vekur að LS grípi til aðgerða af þessu tagi gagnvart EJS, en fyrirtækin eru að hluta til í eigu sömu aðila. EJS er hluti af Tengi, sem varð til þegar Dagsbrún var skipt upp. LS eru hluti af Hands holding, sem einnig var hluti af Dagsbrún. Jón Viggó segir einkennilegt að beita þessum aðferðum í þessu máli. "Mér finnst það stórskrítið og mjög alvarlegt að gera þetta, sér í lagi að vera með þann málatilbúnað sem menn voru með."

Gunnlaugur hjá LS segir að þótt fyrirtæki séu að hluta í eiga sömu aðila séu það eðlilegir stjórnunarhættir að láta þau verja sína hagsmuni, og það sé gert í þessu tilviki.

Í hnotskurn
» Þetta er að líkindum í fyrsta skipti sem reynir á ný lög sem sett voru síðasta sumar. Þau heimila dómara að fela sýslumanni að afla gagna vegna mögulegra brota á höfundarréttarlögum að beiðni þess sem telur á sér brotið.
» Sá sem leita á hjá fær ekki að grípa til varna hjá héraðsdómi ef talin er hætta á því að gögnum verði eytt.
» Í því tilviki eru gögnin geymd í tvær vikur hjá sýslumanni, og hefur sá sem leitað var hjá þann tíma til að mótmæla dómsúrskurðinum og fá honum hnekkt.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »