Ingibjörg Sólrún: Ætla að sjá til þess að Samfylkingin vinni ötullega í nýrri ríkisstjórn

Ingibjörg Sólrún flytur ræður sína á fundinum í dag.
Ingibjörg Sólrún flytur ræður sína á fundinum í dag. Hilmar Bragi

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði á flokksstjórnarfundi í Reykjanesbæ í dag, að hún og frambjóðendur flokksins væru reiðubúnir og hún ætlaði að sjá til þess að Samfylkingin vinni ötullega í nýrri ríkisstjórn, víki sér ekki undan erfiðum verkum og sýni samstöðu, stefnufestu og ábyrgð.

„Vandi Samfylkingarinnar liggur í því að kjósendur þora ekki að treysta þingflokknum – ekki ennþá, ekki hingað til. Of margt fólk sem vill og ætti að kjósa okkur – allur meginþorri Íslendinga sem hafa sömu lífssýn, áhyggjur og verkefni og við – hefur ekki treyst þingflokknum fyrir landsstjórninni. Þetta fólk hefur ekki treyst okkur til þess að gæta hagsmuna þeirra, tryggja stöðugleika, fara með skattpeninga af ábyrgð, gæta þess að atvinnulíf okkar sé samkeppnishæft og vernda hagsmuni Íslands utan landssteinanna.

Fólkið langar en hefur ekki þorað – hingað til. Nú verður á þessu breyting.

En af hverju núna? Jú, vegna þess að Samfylkingin er tilbúin, frambjóðendur eru tilbúnir og ég er tilbúin. Ég ætla að sjá til þess að Samfylkingin vinni ötullega í nýrri ríkisstjórn, víki sér ekki undan erfiðum verkum, sýni samstöðu, stefnufestu og ábyrgð. Ég treysti því og trúi að þingmenn allir og flokksmenn komi með mér í þennan leiðangur því annars höfum við ekki erindi sem erfiði. Annars náum við ekki árangri í þágu íslensks almennings.

Í nýrri ríkisstjórn ætla ég að sjá til þess að víðtækur sáttmáli verði gerður um nýtt jafnvægi í íslenskum stjórnmálum og efnahagsmálum. Samfylkingin vill stjórna með samráði en ekki valdboði að ofan og á næstum mánuðum munum við kynna hvernig nýir stjórnarhættir yrðu útfærðir í formlegu og skuldbindandi samkomulagi milli stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaga og öflugra almannasamtaka um stefnu og áfanga í atvinnumálum, hagstjórn, vinnumarkaðsmálum, ríkisfjármálum og úrbótum í almannaþjónustu," sagði Ingibjörg Sólrún m.a. í ræðu sinni.

Hún sagði einnig, að mikið hafi verið rætt um málefni innflytjenda í samfélaginu að undanförnu og Samfylkingin ætti að viðurkenna, að áhyggjur fólksins í landinu af auknum straumi innflytjenda til landsins séu skiljanlegar. Enginn vildi missa vinnuna, lækka í launum eða láta hóta sér með því að innflytjendur bíði í röðum eftir því að leysa mann af hólmi ef maður héldi sig ekki á mottunni. En mikilvægt væri að hafa í huga að ekki væri við innflytjendur að sakast í þessu máli heldur þvert á móti því fólk af erlendu bergi brotið hefði borið uppi hagvöxtinn í undanfarin ár. Ríkisstjórnin hefði hins vegar vanrækt þennan hóp og ekki tekið vel á móti honum.

„En hvað er til ráða, hvernig sköpum við frið á vinnumarkaði og komum í veg fyrir að innflytjendur verði úthrópaðir sem vandamál í okkar samfélagi? Lykillinn að því að skapa jafnvægi í samfélaginu milli innfæddra og innflytjenda er að innflytjendur njóti sömu réttinda á vinnumarkaði hvað varðar laun, orlofsrétt, veikindadaga, lífeyrisgreiðslur o.fl. Aðeins með slíku jafnræði verður friður á vinnumarkaði, aðeins þannig girðum við fyrir undirboð sem ógna stöðu íslensks launafólks og þetta er án efa besta leiðin til að koma í veg fyrir fordóma og andúð í garð innflytjenda. Hér er mikið verk fyrir höndum fyrir stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins en við getum ekki stungið hausnum í sandinn, þetta er verk sem þarf að vinna fljótt og vel ef ekki á illa að fara," sagði Ingibjörg Sólrún.

Ræða Ingibjargar Sólrúnar í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina