Farþegum strætisvagna á Akureyri stórfjölgar

Farþegum með Strætisvögnum Akureyrar hefur fjölgað um 60% frá því fargjöld voru felld niður um síðustu áramót og nær fjölgunin til allra aldurshópa. Þetta kemur fram þegar fjöldi farþega í þriðju viku þessa árs er borinn saman við sama tíma í fyrra.

Að meðaltali voru farþegar á dag 640 í þriðju viku ársins 2006 en eru nú að meðaltali 1020.

Í tilkynningu frá Akureyrarbæ segir, að hafin sé vinna við endurskoðun á leiðarkerfi Strætisvagna Akureyrar, með það að meginmarkmiði að hefja akstur um hið nýja Naustahverfi syðst í bænum. Ekki sé gert ráð fyrir að núverandi akstursleiðum verði breytt nema að litlu leyti en staðsetning stoppistöðva verður skoðuð og tímatöflur uppfærðar. Þar að auki er stefnt að því að leið 4 aki að Háskólanum á Akureyri.

mbl.is

Bloggað um fréttina