Geðsvið Landspítalans opnað fyrir fyrrum skjólstæðinga Byrgisins

Húsnæði Byrgisins á Efri-Brú. Byggingarnar, sem eru í eigu ríkisins, …
Húsnæði Byrgisins á Efri-Brú. Byggingarnar, sem eru í eigu ríkisins, verða væntanlega seldar. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að ákveðið hefði verið að geðsvið Landspítalans standi opið því fólki, sem hefur verið skjólstæðingar Byrgisins. Þá hefði verið ákveðið að mynda sérstakt teymi sérfræðinga til að annast þennan hóp. Jón Kristjánsson, alþingismaður, sagði að allir hefðu verið blekktir í þessu máli, bæði stjórn og stjórnarandstaða.

Mikið var um frammíköll í umræðunni sem varð nokkuð heit og hávær á köflum.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar, tók mál Byrgisins upp í byrjun þingfundar og spurði hver bæri ábyrgð á málinu, hvort það væri Geir og ríkisstjórn hans eða einhver annar. Sagði össur, að allir handhafar framkvæmdavaldsins væru á hröðum flótta undan málinu og enginn þættist bera á því ábyrgð. Hins vegar væri ljóst, að ekkert hefði gerst í því nema vegna harðra viðbragða fjölmiðla og stjórnarandstöðunnar.

Össur vísaði m.a. til skýrslu vinnuhóps þriggja ráðuneyta frá árinu 2002 þar sem lagt hefði verið til að fjárveitingar til Byrgisins yrðu stöðvaðar þar til fjármálum þar væri komið í lag. Þá spurðu Össur hver bæri ábyrgð á því, að bréfi virts geðlæknis til landlæknisembættisins árið 2002 hefði ekki verið svarað, en þar var vakin athygli á því að konur, vistmenn í Byrginu, hefðu sætt kynferðislegu ofbeldi.

Geir sagði, að þetta hörmungarmál, sem tengist Byrginu væri margþætt. Hann sagðist ekki vita betur, en að landlæknisembættið hefði beðið umræddan geðlækni afsökunar á að honum var ekki svarað á sínum tíma.

Geir sagði, að aðalatriðið nú væri að leysa úr vanda þeirra, sem áður voru skjólstæðingar Byrgisins, ekki síst þeirra kvenna, sem sagðar eru hafa orðið barnshafandi meðan þær dvöldu í Byrginu. Geir sagði að vísu að ekki væri víst að þær hefðu allar hafi orðið barnshafandi þar ef marka mætti nýjar upplýsingar.

Geir sagði einnig, að Össur ætti að kannast við að á Alþingi hefðu verið háværar raddir á sínum tíma um að veita ætti meiri fjármunum til Byrgisins og á það hefði verið fallist.

Jón Kristjánsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, las upp niðurstöðu skýrslu vinnuhópsins frá 2002. Þar segir að Byrgið þjónaði ákveðinni þörf og mikilvægt væri að starfsemin yrði færð til heilbrigðis- eða félagmálasráðuneytis. Þá segði að þróttur og þrautseigja hefði einkennt starf forsvarsmanna Byrgisins og framganga þeirra væri að mörgu leyti aðdáunarverð.

Jón sagði að allir sem komu að þessu máli á sínum tíma hefðu verið blekktir, bæði þeir, sem fórum með stjórnina á þessum tíma, og stjórnarandstaðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert