Töldu ekki líklegt að Jón Gerald yrði sakfelldur

Fréttamenn ræða við Jón H.B. Snorrason í Héraðsdómi Reykjavíkur í …
Fréttamenn ræða við Jón H.B. Snorrason í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/KGA

Jón H.B. Snorrason, fyrrum yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, sagði í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, að Jón Gerald Sullenberger hefði ekki fengið stöðu sakbornings þegar fyrst var ákært í málinu, vegna þess að ekki þótti sennilegt að hann yrði sakfelldur fyrir dómi.

Jón Gerald hafði þá gefið yfirlýsingu um að hann hefði gefið út tilhæfulausa reikninga á Baug og að hafa búið til tilhæfulausan kreditreikning. Þegar settur saksóknari gaf síðar út nýja ákæru í málinu var Jón Gerald ákærður fyrir að útbúa umræddan kreditreikning.

Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, spurði Jón nánar út í símtal sem hann átti við Helga Magnússon, starfsmann Kaupþings, um leit að gögnum bankans um kröfu Baugs á hendur Kaupþingi. Helgi hefur borið fyrir dómnum, að Jón hafi ekki getað leynt ánægju sinni þegar hann fékk þær fréttir, að gögn um kröfuna fyndust ekki, og að brotist hafi út fagnaðarlæti á skrifstofum ríkislögreglustjóra líkt og á fótboltaleik.

Gestur spurði Jón hvort hann hafi vitað að símtalið fór fram í fundasíma og Guðný Anna Sveinsdóttir, annar starfsmaður Kaupþings heyrði það og bar einnig í réttinum með sama hætti og Helgi.

Jón svaraði því neitandi og sagðist hafa talið sig vera að tala við Helga. Sagði hann síðan, að þessar fullyrðingar um fagnaðarlætin væru alveg galnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert