Ætlun um tíðindalítið þinghald stóðst ekki

Eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

GERT hafði verið ráð fyrir að milliþinghaldið í Baugsmálinu sem var háð í gærmorgun yrði stutt og tíðindalítið enda lá aðeins fyrir að leggja ætti fram rafræn gögn, nokkuð sem ekki gaf fyrirheit um miklar sviptingar í dómsalnum. Raunin varð allt önnur því til töluvert harkalegra orðaskipta kom milli verjanda Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og saksóknarans og lauk þinghaldinu með því að dómurinn tók ekki við neinum gögnum og dómarinn bað menn að "hugsa málið" yfir helgina.

Þinghaldið átti að hefjast klukkan 9.30 en saksóknara hafði misheyrst þegar tímasetningin var tilkynnt í síðasta þinghaldi og taldi að það ætti að hefjast klukkan 10. Hann mætti til dóms klukkan 9.45 og taldi sig væntanlega hafa góðan tíma til undirbúnings. Með honum í för var lögreglumaður sem byrjaði þegar að setja upp skjávarpa en ætlun saksóknara var að sýna dómnum hvernig afrit af tölvupóstum Tryggva Jónssonar litu út en þau voru á hörðum diski sem hann hugðist afhenda dómnum.

Seinkun sem varð af þessum sökum mæltist illa fyrir hjá Gesti Jónssyni, verjanda Jóns Ásgeirs, og hann var síst ánægðari með fyrirhugaða sýningu á tölvupóstum. Gestur var eini verjandinn sem mætti í þinghaldið en hann hafði umboð frá Jakobi R. Möller, verjanda Tryggva.

Gestur sagðist hafa komið til dóms eingöngu í því skyni að taka á móti gögnum, eins og rætt hefði verið um, og hann teldi að umboð hans frá Jakobi næði eingöngu til þess að taka við einhverju sem hann gæti afhent honum í umslagi. Hann mótmælti að gögn yrðu lögð fyrir dóminn svo seint í ferlinu og alls ekki kæmi til greina að lögð yrðu fram ný gögn föstudaginn áður en málflutningur hæfist enda hefðu verjendur engin tök á að fara yfir þau.

Varðandi fyrirhugaða sýningu með skjávarpanum sagði Gestur að hún kæmi ekki til greina enda hefði hann engin tök á því að fara á fund Jakobs til að útskýra sýningu saksóknarans fyrir honum. Þessi framlagning væri "ekki í samræmi við neitt sem ég hef séð í opinberu máli, aldrei", sagði Gestur og lagði þunga í orð sín. Framlagning gagnanna og útskýring á þeim með aðstoð skjávarpa á þessum tímapunkti væri án fordæmis og "algjörlega út í hött".

Sigurður Tómas sagði á hinn bóginn að sýningin væri eingöngu til þess að dómarar gætu betur áttað sig á því hvernig finna mætti tölvupósta á harða diskinum og tók skýrt fram að hér væri ekki um ný gögn að ræða. Framlagning þeirra væri þó ekkert sem skipti sköpum í málinu.

Sigurður Tómas ætlaði einnig að leggja fram afrit af tölvupóstsamskiptum lögreglumanna við Deloitte, en þeim gögnum höfðu verjendur óskað eftir og sagði hann að öflun þeirra hefði kostað töluverða vinnu og fyrirhöfn. Gestur benti þá á að verjendur hefðu óskað eftir að umrædd gögn yrðu lögð fram fyrir 19. mars og það hefði verið einfalt mál fyrir lögregluna að senda gögnin með tölvupósti. Sigurður Tómas sagði þá að það væri ekki góð reynsla af því að senda Gesti tölvugögn því þau kæmu þá í fjölmiðla strax í kjölfarið. "Þakka þér fyrir það," svaraði Gestur, stuttur í spuna.

Um þessi gögn sagði Arngrímur Ísberg dómsformaður að hann áttaði sig ekki alveg á þýðingu þeirra fyrir málið. "Dómurinn ætlar ekki að láta þennan skjalagrúa kaffæra sig," sagði hann. Annars kæmi dómurinn ekki fyrr en undir jól.

Í hnotskurn
» Saksóknari hugðist leggja fram rafræn afrit af öllum tölvupósti Tryggva Jónssonar sem lagt var hald á.
» Ákæruvaldið hafði þegar lagt fram þá tölvupósta sem það telur skipta máli.
» Einnig átti að leggja fram afrit af tölvupóstum milli rannsóknarlögreglumanna við endurskoðendur Deloitte en þar var gert að ósk varnarinnar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert