Spilling á hæsta stigi

Sigurður Tómas Magnússon, saksóknari, er að flytja mál sitt í …
Sigurður Tómas Magnússon, saksóknari, er að flytja mál sitt í héraðsdómi þessa dagana. mbl.is/Sverrir

Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari í Baugsmálinu, sagði Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, að það væri spilling á hæsta stigi, að aðilar nátengdir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs Group, hefðu notið lánafyrirgreiðslu hjá fyrirtækinu til að kaupa nýtt hlutafé í Baugi.

Í málinu er Jón Ásgeir m.a. ákærður fyrir brot gegn hlutafjárlögum með því að láta Baug lána ýmsum aðilum fyrir kaupum á nýju hlutafé í félaginu. Sigurður Tómas sagði mikilvægt að hafa í huga, að tilgangur með hlutafjárútboðum væri að fá nýtt fjármagn inn i félagið. Þetta markmið náist ekki, ef einstakir hluthafar fái að skulda hlutaféð eins og eigi við í þessu tilfelli.

Þá hefðu eingöngu aðilar nátengdir Jóni Ásgeiri notið þessara lána og þessir aðilar, Kristín, systir Jóns Ásgeirs og félögin Fjárfar og Gaumur hefðu með hlutafjárkaupunum fengið aukin áhrif í félaginu og greiddan arð af hlutfénu. Þetta væri spilling á hæsta stigi.

Sigurður Tómas sagði að þær lánveitingar, sem ákært er fyrir, væru refsiverðar vegna þess að þær féllu tvímælalaust ekki undir daglegan rekstur í smásölurekstri og teldust því ekki vera venjuleg viðskiptalán eins og mælt væri fyrir um í lögum. Þá hafi lánin ekki verið veitt í viðskiptum við aðra aðila en Jón Ásgeir og félög honum tengd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert