Fær ekki skaðabætur

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að Pétur Þór Gunnarsson, listaverkasali eigi ekki rétt á bótum úr hendi ríkisins á þeim forsendum að honum var synjað um reynslulausn vegna þess að annað mál á hendur honum var í gangi í dómskerfinu.

Pétur Þór var dæmdur í sex mánaða fangelsi árið 2000 fyrir aðild að listaverkafölsunarmáli. Hann sótti um reynslulausn eftir að hafa afplánað helming dómsins en því var hafnað á þeirri forsendu að annað mál gegn honum væri í gangi í dómskerfinu.

Fram kom að í þessu ólokna máli hafi ekki verið ákært fyrr en í janúarmánuði 2003 og því lauk með sýknu í dómi Hæstaréttar í maí 2004. Taldi Pétur Þór, að synjun á umsókn hans um reynslulausn hafi verið grundvölluð á óloknu máli, sem ekki hafi verið ákært í fyrr en að liðnum tveimur árum og þremur mánuðum betur frá lokum fangavistar hans.

Pétur Þór krafðist bóta þar sem hann taldi að sér hefði verið synjað um reynslulausn á ólögmætum grundvelli. Hæstiréttur féllst hins vegar ekki á að afgreiðslan á umsókn Péturs hefði byggst á ólögmætum sjónarmiðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert