Yfir 60% landsmanna telja að flugvöllur eigi að vera í Vatnsmýri

Frá Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri.
Frá Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri.

Meirihluti landsmanna, eða 61,5%, vill að flugvöllur verði áfram í Vatnsmýri í Reykjavík. Þetta kom fram í könnun, sem Capacent Gallup gerði fyrir Ríkisútvarpið. 14,8% vilja að miðstöð innanlandsflugs verði á Keflavíkurflugvelli, 8,5% að flugvöllurinn verði á Hólmsheiði og 6,6% að hann verði á Lönguskerjum.

Lítill munur var á afstöðu karla og kynja til þess hvar miðstöð innanlandsflugs eigi að vera en nokkur munur kom fram eftir búsetu, menntun og stuðningi við stjórnmálaflokka. Þannig vildu á bilinu 52,5-55,7% svarenda í Reykvíkurkjördæmum, Suðurkjördæmi og Suðvesturkjördæmi að flugvöllur verði áfram í Vatnsmýri en yfir 80% svarenda í Norðvestur- og Norðausturkjördæmum.

Þá vilja nærri 80% stuðningsmanna Framsóknarflokks að flugvöllur verði í Vatnsmýri en rúmlega 50% stuðningsmanna Samfylkingar. Þá minnkar stuðningur við flugvöll í Vatnsmýri í hlutfalli við aukna menntun svarenda.

Könnunin var gerð 18. til 23. apríl og var úrtakið 1190 manns á aldrinum 18-75 ára. Svarhlutfall var 62,1%. Þeir sem vildu hafa flugvöllinn annars staðar en í Vatnsmýrinni voru spurðir: „Hvar finnst þér að miðstöð innanlandsflugs eigi að vera?“ Svarmöguleikarnir: Á Hólmsheiði, í Keflavík og á Lönguskerjum voru lesnir upp í tilviljunarkenndri röð fyrir svarendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert