Þingmenn ganga til kirkju

mbl.is/Júlíus

Þingsetningarathöfn Alþingis hófst í dag kl. 13:30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Gengu forseti Íslands, ráðherrar og alþingismenn fylktu liði til kirkjunnar þar sem séra Jakob Ágúst Hjálmarsson dómkirkjuprestur predikar og þjónar fyrir altari ásamt Karli Sigurbjörnssyni, biskup Íslands.

Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskupinn yfir Íslandi, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins og þar setur Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, þingið, en þetta er 134. löggjafarþing Íslendinga. Að því loknu tekur starfsaldursforseti, Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra, við fundarstjórn og stjórnar kjöri kjörbréfanefndar. Þingsetningarfundi verður síðan frestað til kl. 15.30.

Þegar þingsetningarfundi er fram haldið verða kjörbréf afgreidd, varamenn taka sæti og drengskaparheit verða undirrituð. Starfsaldursforseti stjórnar síðan kjöri forseta Alþingis, kosnir verða varaforsetar og kosið verður í fastanefndir Alþingis og til Íslandsdeilda þeirra alþjóðasamtaka sem Alþingi á aðild að. Að síðustu verður hlutað um sæti þingmanna, en það er gert með hlutkesti.

Í kvöld kl. 19:50 verður 2. fundur þingsins og á honum flytur Geir H. Haarde stefnuræðu forsætisráðherra og í framhaldinu verður umræða um hana þar sem þingmenn allra flokka takast á. Umræðunni verður bæði útvarpað og sjónvarpað. Næsti þingfundur verður síðan á mánudag þar sem mælt verður fyrir málum.

mbl.is

Bloggað um fréttina