Allar íbúðirnar hafa gengið út

mbl.is/Eyþór Árnason

Allar þær íbúðir sem fyrirhugað var að leigja út á háskólasvæðinu á Keflavíkurflugvelli hafa runnið út og verið er að athuga með að fá fleiri íbúðir til að leigja. Mun því myndast 700 til 800 manna byggð þarna strax í haust.

Háskólamiðstöðin Keilir fékk 300 íbúðir hjá Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar til að leigja til eigin stúdenta og annars námsfólks. 350 umsóknir bárust og segir Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Keilis, að verið sé að athuga möguleikana á því að fá fleiri íbúðir til endurleigu. Íbúðirnar verða afhentar í ágúst. Þá myndast 700 til 800 manna samfélag á háskólasvæðinu, starfsfólk og nemendur hjá Keili, auk námsfólks úr háskólunum á höfuðborgarsvæðinu.

Í þessum hópi verða um 200 börn. Keilir er að undirbúa þjónustu við íbúana. Þannig hefur bæjarráð Reykjanesbæjar tekið vel í hugmyndir Keilis um að félagið taki að sér rekstur leikskóla í húsnæði sem hýsti leikskóla varnarliðsins. Keilir hefur verið í viðræðum við Hjallastefnuna ehf. um að annast þennan rekstur fyrir sína hönd en ekki hefur verið gengið frá samningum. Börn á grunnskólaaldri sækja skóla í Reykjanesbæ og skipulagðar verða almenningssamgöngur þar á milli.

Runólfur segir að jafnframt sé verið að undirbúa verslun, veitingastað og aðra persónulega þjónustu fyrir væntanlega íbúa.

Ætlunin var að taka 100 nemendur inn í frumgreinadeild Keilis í haust og nú þegar hafa borist á milli 130 og 140 umsóknir. Um er að ræða aðfaranám að háskóla sem skipulagt er í samvinnu við Háskóla Íslands.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert