Óánægðir með skýrslu um Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar

Íbúðabyggðin á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
Íbúðabyggðin á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Minnihluti fjárlaganefndar telur, að skýrsla, sem Ríkisendurskoðun skilaði nýlega um Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar svari ekki grundvallarspurningum varðandi sölu og umsýslu Þróunarfélagsins   með eigur ríkisins á Keflavíkurflugvelli og kalli á frekari rannsókn.

Þeir Bjarni Harðarson, Framsóknarflokki, Guðjón Arnar Kristjánsson, Frjálslynda flokknum og Jón Bjarnason, VG, segja í sérstöku nefndaráliti, að   einnig megi efast um hæfi Ríkisendurskoðunar til að annast stjórnsýsluendurskoðun á Þróunarfélaginu en Ríkisendurskoðun sé jafnframt endurskoðandi þess.

Þingmennirnir gera m.a. athugasemdir við, að Ríkisendurskoðun telji að söluverð eigna árið 2007 hafi verið tæplega 15,3 milljarðar króna. Í bréfi fjármálaráðuneytis til fjárlaganefndar Alþingis dags 28. janúar 2008 komi fram að söluverð eigna hafi verið 12,8 milljarðar. Hluti þessa mismunar virðist liggja í því að fjármálaráðuneytið hafi dregið kostnað við raflagnir, um 1,9 milljarða, frá söluverðinu og fært það þannig til bókar.

Segjast þingmennirnir telja nauðsynlegt að fá úrskurð ríkisreikningsnefndar um hvora bókhaldsaðferðina eigi að nota. Þrátt fyrir ólíkar aðferðir þurfi að skýra til fulls þann mun sem er á söluverði eigna og kostnaði, eins og hann birtist í upplýsingum Ríkisendurskoðunar og fjármálaráðuneytis, en þar munar um 600 milljónum króna.

Þá telja þingmennirnir, að fullyrðing ríkisendurskoðanda um veðsetningu eigna standist ekki. Þá segja þeir að í umfjöllun um hagsmunatengsl og hæfi sé horft fram hjá því að leggja heildstætt mat á vanhæfi manna út frá þeirri heildarmynd sem blasi við en í stað þess sé horft einangrað og þröngt á hvert tilvik. Horft hafi verið fram hjá mikilsverðum staðreyndum um tengsl milli manna sem sitja í stjórn Þróunarfélagsins við þá aðila sem keypt hafa fasteignir, og tengslum bæjarstjórnarmanna Reykjanesbæjar við fyrirtæki sem hagnast hafa af kaupum eigna sem voru í umsjá Þróunarfélagsins, og hvernig tilnefningum hefur verið hagað í stjórnir og nefndir sem tengjast þessu máli. Ýmsum atriðum og tengslum er sleppt, t.d. eignarhaldi Reykjanesbæjar í Keili, tilnefningu Steinþórs Jónssonar á Árna Sigfússyni í stjórn Þróunarfélagsins og svo virðist sem mismunandi túlkun sé beitt til að fá sem hagfelldasta niðurstöðu.

Nefndarálitið í heild

mbl.is
Loka