„Íslensk stjórnvöld þurfa að ákveða framtíð ratsjárstöðva“

Degi áður en varnaræfingin Norðurvíkingur hefst segir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, að enn sé ekki útséð um hvernig rekstri ratsjárstöðva hersins verður hagað eftir að Ísland tekur yfir þann 16. ágúst, en engar stórfelldar breytingar séu fyrirhugaðar. Þá sagði forsætisráðherrann ánægjulegt að norskir hermenn fái tækifæri til þess að æfa sig með herliði Atlandshafsbandalagsins (Nato) við íslenskar aðstæður í ljósi varnarsamnings ríkjanna.

William T. Hobbins, hershöfðingi bandaríska flughersins í Evrópu, sagði Bandaríkjaher vera þakklátan fyrir að fá tækifæri til að æfa her sinn á Íslandi og sagði herinn hafa lært mikið af Íslendingum.

Þá sagði Hobbins varnarmál Íslands verða rædd innan Nato á næstunni, þegar íslensk stjórnvöld hafa ákveðið hvað þau vilji gera við ratsjárnar.

Samkvæmt samningi milli Íslands og Bandaríkjanna verða árlegar heræfingar á Íslandi. Hobbins segir að líklega verði næsta æfing í júní árið 2008 Þá segir hann æfingarnar hugsanlega taka á sig breytta mynd og við bætist mögulega æfingar á sjó og leitaræfingar, auk loftvarnaræfinga.

Varnaræfingin, sem grundvallast af samkomulagi Íslands og Bandaríkjanna með þátttöku annarra Nato-ríkja, er tvískipt. Annars vegar verður loftvarnaræfing yfir hafi suðvestur af Reykjanesskaga og hins vegar sérsveitaræfingin sem munu fara fram á Keflavíkurflugvelli og í Hvalfirði.

mbl.is

Bloggað um fréttina