Fallist á að mál Mjólkursamsölunnar fái flýtimeðferð

Húsnæði Mjólkursamsölunnnar.
Húsnæði Mjólkursamsölunnnar. mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur hefur fallist á kröfur Mjólkursamsölunnar ehf. Auðhumlu svf. og Osta- og smjörsölunnar sf., um að mál, sem fyrirtækin hyggjast höfða á hendur Samkeppniseftirlitinu hljóti flýtimeðferð fyrir dómstólum. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður hafnað þessari kröfu. Fyrirtækin vilja, að forstjóri Samkeppniseftirlitsins og aðrir starfsmenn víki sæti við rannsókn sem stendur yfir á ætluðum brotum fyrirtækjanna gegn samkeppnislögum.

Fyrirtækin þrjú sendu Samkeppniseftirlitinu bréf í júní þar sem þess var krafist að Páll Gunnar Pálsson, forstjóri stofnunarinnar, viki sæti við rannsókn stjórnsýslumáls, sem hófst með húsleit hjá fyrirtækjunum 5. júní. Telja fyrirtækin, að vegna ummæla og óviðeigandi framkomu hafi forstjóri Samkeppniseftirlitsins orðið vanhæfur til meðferðar málsins og aðrir starfsmenn stofnunarinnar þar með á grundvelli undirmannavanhæfis.

Þegar Samkeppniseftirlitið hafnaði kröfunni óskuðu fyrirtækin eftir því við dómstóla, að fyrirhugað dómsmál sætti flýtimeðferð. Því hafnaði hérðaðsdómur en Hæstiréttur féllst á kröfuna í dag. Vísar dómurinn til þess, að það sé meðal annars skilyrði fyrir flýtimeðferð einkamáls að mál sé höfðað vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds. Segist rétturinn telja að skilyrði laga séu uppfyllt til að heimila flýtimeðferð á málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina