Leit haldið áfram á Svínafellsjökli; pokar fundust nálægt fjölfarinni gönguleið

Björgunarsveitir og þyrla á Svínafellsjökli.
Björgunarsveitir og þyrla á Svínafellsjökli.
Fjórir björgunarsveitarmenn Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Höfn ganga nú frá tjaldbúðum þýsku ferðamannanna, Matthias Hinz og Thomas Grundt, sem fundust í 480 metra hæð á Svínafellsjökli í síðustu viku, og að þeim stað þar sem nýjar vísbendingar um ferðir mannanna fundust í dag, þ.e. neðst við jökulinn. Auk þess flýgur þyrla Landhelgisgæslunnar leitarflug yfir svæðið.

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir leitarsvæðið vera mjög afmarkað og að það eigi ekki að vera mjög erfitt yfirferðar.

Hún segir að tveir plastpokar og léttur dagpoki hafi fundist dysjaðir neðst við jökulinn í gær, þ.e. um 100 metra frá jökulbrúninni. Pokarnir fundust skammt frá fjölförnum göngustíg sem liggur frá Hótel Freysnesi og upp á jökulinn. Í þeim var m.a. skór, fatnaður, bækur og ísskrúfur.

Að sögn lögreglu þóttu verksummerki benda til þess að gengið hefði verið frá búnaðinum, hugsanlega í þeim tilgangi að létta byrði.

mbl.is

Bloggað um fréttina