Heilbrigðisráðherra fundaði um lyfjamál með framkvæmdastjórum ESB

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, átti í gær og fyrradag fundi með tveimur framkvæmdastjórum Evrópusambandsins, annars vegar Günter Verhaugen sem fer með lyfjamál og hins vegar Makros Kyprianou, sem fer með heilbrigðismálin. Günter Verhaugen er jafnframt fyrsti varaforseti ESB.

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að á fundunum hafi staða lyfjamála á innri markaði Evrópusambandsins, sem nái einnig til Íslands á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, rædd og að heilbrigðisráðherra hafi vakið sérstaka athygli á vanda sem minni markaðssvæði eins og Ísland eiga við að glíma í því sambandi. Benti ráðherrann á að markaðurinn væri ekki að virka sem skyldi á Íslandi og öðrum minni markaðssvæðum. Lyfjaverð væri hærra á Íslandi en gerist og gengur á hinum Norðurlöndunum og langt yfir meðallyfjaverði í ríkjum Evrópusambandsins, auk þess sem lyfjaframboð á Íslandi væri með öðrum hætti en í stærri ríkjum markaðssvæðisins.

Í máli framkvæmdastjóranna beggja kom fram mikill skilningur á þessum vanda. Meðal annars var rætt um stofnun sérstakrar vinnunefndar til að móta tillögur að lausn vandans og leggja fyrir Framkvæmdastjórn ESB. Ísland mun fá aðild að þessari vinnunefnd sem mun væntanlega starfa á grundvelli þeirrar vinnu sem nú fer fram á vettvangi Evrópusambandsins varðandi lyfjaiðnaðinn og lyfjamarkaðinn í heild sinni.

Þá vakti heilbrigðisráðherra athygli á því að breytingar á evrópsku lyfjalöggjöfinni, sem áttu sér stað árið 2004, væru enn ekki komnar í EES samninginn. Voru aðilar sammála um að hraða bæri því ferli sem kostur væri, enda væri þar að finna aukinn sveigjanleika sem hægt væri að nýta til að koma að einhverju leyti til móts við umræddan vanda á litlum markaðssvæðum.

Viðskipti með heilbrigðisþjónustu milli landa

Á fundum heilbrigðisráðherra með framkvæmdastjórunum tveimur fóru ennfremur fram umræður um flæði heilbrigðisþjónustu milli landa og viðleitni framkvæmdastjórnar ESB til að skýra betur rétt sjúklinga til að sækja sér heilbrigðisþjónustu utan heimalands. Þessi umræða hefur meðal annars farið fram í tengslum við umræður um mótun sérstakrar tillögu að þjónustutilskipun fyrir Evrópusambandið og EES svæðið og byggir meðal annars á dómafordæmi því sem Evrópudómstóllinn hefur skapað á liðnum árum. Kom meðal annars fram að framkvæmdastjórnin hyggst senda frá sér frekari tillögur um þessi mál síðar í haust.

Heilbrigðisráðherra fundaði einnig með Evrópusamtökum lyfjaframleiðenda (efpia), starfsmönnum EFTA og ESA í Brussel, auk þess að funda með Stefáni Hauki Jóhannessyni sendiherra og starfsmönnum í sendiráði Íslands í Brussel.

mbl.is