Femínistafélagið kærir Vísa-klám

Öryggisráð Femínistafélags Íslands kærði forstjóra og stjórn Valitor - Visa Ísland, fyrir að stuðla að og taka þátt í dreifingu kláms. Katrín Oddsdóttir og Kristín Tómasdóttir kærðu fyrir hönd femínista. „Við byggjum bæði á 210. grein og annarri sem segir að sá sem er þátttakandi í glæp sé jafn sekur og sá sem fremur glæpinn," segir Katrín.

Valitor sér um svokallaða færsluhirðingu fyrir marga erlenda klámvefi, en í því felst að þegar fólk kaupir klám með Visa-korti sér Valitor um innheimtuna. Höskuldi H. Ólafssyni, forstjóra Valitor, var ekki kunnugt um kæruna þegar 24 stundir höfðu samband við hann en sagði fyrirtækið ekki standa í ólöglegri starfsemi eða starfsemi sem stríddi gegn stefnu Visa erlendis.

mbl.is