Mál Erlu til rannsóknar hjá bandarískum yfirvöldum

Carol van Voorst gengur á fund Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, …
Carol van Voorst gengur á fund Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, í dag, Eggert Jóhannesson

Viðtökur þær sem Erla Ósk Arnardóttir hlaut hjá bandarískum landamæravörðum í New York um helgina eru til rannsóknar hjá bandarískum yfirvöldum, segir í fréttatilkynningu frá sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi í kvöld.

Carol van Voorst, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, fullvissaði í dag Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra um að bandarísk stjórnvöld líti málið mjög alvarlegum augum, segir ennfremur í tilkynningunni.

Á fundinum lýsti Ingibjörg Sólrún þeirri skoðun, að bandarísk stjórnvöld skulduðu Erlu Ósk afsökunarbeiðni fyrir þá meðferð, sem hún sætti á JFK flugvelli sl. sunnudag.

Til að draga úr hættu á misskilningi varðandi tímabundið landvistarleyfi ferðamanna í Bandaríkjunum án sérstakrar vegabréfsáritunar mun sendiráðið bæta upplýsingum á vef sinn til að útskýra nánar þær reglur sem um slíkt landvistarleyfi gilda. Mælist sendiráðið til þess að allir ferðamenn sem ætla til Bandaríkjanna skoði vefinn áður en þeir halda af stað.

Heimasíða bandaríska sendiráðsins

mbl.is