Bærinn gat neitað stúlku um skólavist

Seltjarnarnes.
Seltjarnarnes. mbl.is/Loftmyndir ehf.

Hæstiréttur hefur sýknað Seltjarnarneskaupstað af skaðabótakröfu konu, sem vikið var úr skóla í sveitarfélaginu og síðan neitað um skólavist vegna fötlunar og sjúkdóma. Segir Hæstiréttur m.a., að foreldrar konunnar hafi ekki átt fortakslausan rétt á að konan nyti aðgangs að almennum grunnskóla í heimabyggð.

Konan, sem er fædd 1985, er fötluð af völdum tilgreinds sjúkdóms og auk þess þroskaheft, flogaveik og með einkenni einhverfu. Hún  hóf árið 1991 nám í skóla á Seltjarnarnesi  og stundaði grunnskólanám í sveitarfélaginu til ársins  2000.

Konan höfðaði skaðabótamál gegn Seltjarnarneskaupstað og taldi sig hafa sætt alvarlegu og viðvarandi einelti af hálfu skólayfirvalda í bænum. Einkum vísaði hún til tímabundinnar brottvísunar úr Valhúsaskóla snemma árs 2000, synjunar skólans um að veita henni skólavist í ágúst sama ár og tilkynningar skólaskrifstofu Seltjarnarnesbæjar í október það ár um að skólinn gæti ekki veitt henni viðtöku.

Hæstiréttur segir, að gögn málsins sýni að um langt skeið hefði ríkt grundvallarágreiningur milli stjórnenda grunnskóla Seltjarnarness og sérfræðinga á þeirra vegum annars vegar og foreldra konunnar hins vegar um tilhögun kennslu hennar.

Skólayfirvöld töldu ekki unnt að veita konunni kennslu við hæfi í heimaskóla sökum mikillar fötlunar hennar og að hag hennar væri betur borgið í sérskóla. Foreldrarnir töldu hins vegar að hvað sem þessu mati liði ætti dóttir þeirra ótvíræðan rétt á að stunda nám í almennum grunnskóla og þau gætu ein sem forráðamenn hennar tekið ákvörðun um hvort sótt yrði um vist í sérskóla.

Hæstiréttur segir að þrátt fyrir meginregluna í lögum um grunnskóla um að nám fatlaðra nemanda fari fram í heimaskóla væri ljóst af athugasemdum með frumvarpi til grunnskólalaga, að fötlun nemanda kynni að vera slík að hann gæti ekki stundað nám í almennum grunnskóla. Mat á því hvort barn fengi notið kennslu við sitt hæfi í heimaskóla ætti samkvæmt  lagaákvæðinu bæði undir foreldra þess og kennara og aðra sérfræðinga.

Þá fælist í forsjárskyldum foreldra  að afla barni sínu lögmæltrar fræðslu og ráða persónulegum högum þess og því væri það á þeirra valdi og ábyrgð að sækja um skólavist fyrir barn í sérskóla á sama hátt og það væri almennt á valdi þeirra og ábyrgð að innrita barn í skóla. Þessum skyldum bæri foreldrum að gegna svo sem best henti hag barnsins. Þau væru þannig bundin við ákvarðanir í þessum efnum, að taka tillit til mats sérfræðinga á vegum skólayfirvalda um hvað barni væri fyrir bestu.

Segir Hæstiréttur að foreldrar konunnar hafi  því ekki átt fortakslausan rétt á að hún nyti aðgangs að almennum grunnskóla í heimabyggð. Taldi Hæstiréttur ekki, að konunni hefði  tekist að sýna fram á að fullnægt væri skilyrði skaðabótalaga varðandi þær ákvarðanir skólayfirvalda Seltjarnarness, sem konan taldi að hefði falist í ólögmæt meingerð gegn frelsi hennar, friði, æru eða persónu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert