Vilja leyfa reykingaherbergi á skemmtistöðum

AP

Nokkrir þingmenn hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á tóbaksvarnalögum og vilja leyfa reykingar í sérstöku reykingaherbergi á veitingastöðum, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Meðal þeirra skilyrða er að herbergin séu tiltölulega lítil eða létt mannvirki utan húss sem veiti skjóli fyrir regni og vindi. Þá séu reykingaaðstaðan aðskilin frá veitingarými þannig að gestir þurfi ekki að ganga þar um. Einnig þurfi starfsfólk ekki að dveljast þar.

Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, er fyrstu flutningsmaður frumvarpsins en auk hans eru átta þingmenn Frjálslynda flokksins, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks meðflutningsmenn.

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. að miðað við þau vandamál, sem upp hafi komið varðandi framkvæmd tóbaksvarnalaganna í þeirri mynd sem þau eru nú, megi ætla að víðtækari sátt mundi nást um tóbaksvarnalögin nái frumvarpið fram að ganga. Þá yrði síður hætta á því að lögin væru brotin vegna þeirra ágalla sem á þeim eru og takmarkaðra möguleika til að stöðva ólögmætt athæfi og beita refsiviðurlögum.

Þá sé líka ljóst að mörgum finnist réttur brotinn á sér með svo hörkulegum ákvæðum um reykingabann, sem nú gildi á veitinga- og gististöðum. Mikilvægt sé að ná fram víðtækri sátt um tóbaksvarnir en einungis þannig muni nást það meginmarkmið laganna að draga úr tóbaksreykingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert