Úrslit í keppni um skipulag Vatnsmýrar kynnt

Niðurstöður úr hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrarinnar voru kynnt nú síðdegis en alls bárust 136 tillögur í keppnina.  Sýning á tillögunum verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur klukkan 17. Fyrstu verðlaun hlutu skosku arkítektarnir Graeme Massie, Stuart Dickson og Alan Keane.

Verkefni þeirra heitir Gagnkvæmni, mótun höfuðborgar. Hún gerir ráð fyrir þéttri en lágreistri borgarbyggð í Vatnsmýri. Auk þess sé Hljómskálagarður stækkaður til suðurs, ný tjörn mynduð í Vatnsmýri og Hringbraut lögð í stokk.

Dómnefnd gaf tillögu Massies og samstarfsmanna hans mest vægi þeirra þriggja sem þóttu í fremstu röð og í umsögn hennar kemur fram að tillaga hans hafi burði til þess að vera útgangspunktur framtíðarþróunar í Vatnsmýri. Að auki mætir umrædd tillaga mjög vel þeirri ósk dómnefndar að hægt sé að áfangaskipta uppbyggingu á svæðinu. 

Keppnin um skipulag Vatnsmýrarinnar hófst í lok mars 2007 og var þátttaka heimil fagfólki í arkitektúr og skipulagi um allan heim. Keppendur höfðu aðgang að umfangsmiklum gögnum um skipulagsforsendur svæðisins, ásamt skýrslum um samráð við borgarbúa og hagsmunaaðila um þá möguleika sem Vatnsmýrin kynni að bjóða upp á.  Í forsendum var ekki tekin afstaða til þess hvort flugvöllur væri áfram á svæðinu heldur kallað eftir hugmyndum um þróunarmöguleika.

Dómnefnd var skipuð þremur borgarfulltrúum og fjórum fagmönnum á sviði skipulags og uppbyggingar. Formaður dómnefndar var Dagur B.  Eggertsson en auk hans sátu í dómnefnd borgarfulltrúarnir Hanna Birna Kristjánsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson.
Aðrir í dómnefnd voru Joan Busquets, prófessor í borgarskipulagi við Harvard háskóla og fyrrum skipulagsstjóri í Barcelona og arkitektarnir Steve Christer, Kees Kaan, og Hildebrand Machleidt.

Vefur samkeppninnar

Verðlaunahafarnir með viðurkenningar sýnar, Til hægri eru dómnefndarmenn og borgarstjóri.
Verðlaunahafarnir með viðurkenningar sýnar, Til hægri eru dómnefndarmenn og borgarstjóri. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina