Breiðavíkurskýrslan verði rædd í borgarráði

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, hefur óskað eftir því að Breiðavíkurskýrslan, Könnun á starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952-1979, verði sett á dagskrá borgarráðs á morgun, og að veitt verði yfirlit yfir þau atriði í henni sem snúa að barnaverndarnefnd Reykjavíkur og Reykjavíkurborg.

„Breiðavíkurheimilið var á þeim tíma sem skýrslan nær til rekið af ríkinu og var á ábyrgð þess. Það vekur hins vegar athygli að ekki hafi verið gert ráð fyrir kynningu hennar í borgarráði í útsendri dagskrá því einsog fram kemur í niðurstöðum skýrslunnar kann að hafa leikið vafi á því að forsendur fyrir ákvörðunum barnaverndarnefndar Reykjavíkur hafi stuðst við fullnægjandi lagagrundvöll amk á hluta þess tímabils sem athugunin nær til.

Einkum geti þetta átt við þegar börn hafi verið vistuð vegna fátæktar eða annarra heimilisaðstæðna fremur en vegna háttsemi eða hegðunar barnsins sjálfs. Þá segir einnig að vafi leiki á því að málsmeðferð barnaverndarnefndar Reykjavíkur á árunum 1952-66 hafi verið í samræmi við skyldur hennar.

Eðlilegt verður að telja að borgarráð kynni sér þessar niðurstöður og aðrar, s.s. fjölda Reykvíkinga í hópi þeirra sem vistaðir voru í Breiðavík, almenna lærdóma fyrir gildandi framkvæmd og eftirlit á sviði barnaverndarmála auk þess sem brýnt er að svara því hvort tilefni er til að kanna frekar ástæður eða rök til hugsanlegrar skaðabótaskyldu borgarinnar og afsökunarbeiðni borgaryfirvalda. Þá verður ekki hjá því vikist að borgarráð taki afstöðu til frekari athugana á málefnum einstaklinga sem vistaðir voru í Breiðavík eða skoðun á öðrum sambærilegum stofnunum þar sem reykvísk börn hafa verið vistuð undanfarin ár og áratugi," segir í beiðni Dags.

mbl.is

Bloggað um fréttina