Farið að síga í seinni hlutann á loðnunni

Loðnuflotinn hefur verið við veiðar í Faxaflóa að undanförnu og er farið að síga í seinni hlutann, þótt enn eigi eftir að veiða um 50% kvótans, ríflega 70 þúsund tonn af um 152 þúsund tonna kvóta.

„Þetta svona smá-mjakast,“ segir Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á Jóni Kjartanssyni, um veiðar gærdagsins. Hann kom á miðin á sunnudag og vonaðist til að geta haldið heim á leið í gærkvöldi, en um sólarhring tekur að sigla til Eskifjarðar.

Ekkert fjör í þessu

Loðnan veiðist nú aðeins í björtu og fyrst og fremst síðdegis. Því til staðfestingar segir Grétar að hann hafi kastað fjórum sinnum og verið kominn með um 1.000 tonn síðdegis í gær. „Það er ekkert fjör í þessu,“ segir hann, en bætir samt við að það lifni yfir veiðinni seinni partinn. „Hún stendur djúpt, er byrjuð að hrygna og liggur mikið niðri.“

Grétar telur að fáir veiðidagar séu eftir. Þeir eigi líka lítið eftir af kvótanum en segir alltaf skemmtilegra að klára hann á sómasamlegan hátt heldur en að þurfa að skilja eitthvað eftir. „Ef það verður eitthvað næstu daga þá klárum við okkar.“

Engin loðna enn fyrir vestan

Hafrannsóknastofnunin vonast enn til að svokölluð vestanganga komi að landinu úr norðri og hrygni á Breiðafirði og Faxaflóa. Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri á nytjastofnasviði Hafrannsóknastofnunarinnar, segir að hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson hafi leitað að loðnu fyrir vestan undanfarna daga án árangurs. Ekki sé samt fullreynt og á meðan gefi menn ekki upp vonina. Hins vegar minnki líkurnar með hverjum degi en ekkert sé útilokað. Ákveðnar fréttir hafi verið af loðnu fyrir vestanverðu Norðurlandi og seinni göngur komi oft viku eða 10 dögum eftir að veiði úr svonefndum hefðbundnum göngum lýkur.

Viðbótin ekki enn komin

Þorsteinn segir að loðnan sem hafi mælst austan Ingólfshöfða og leitt til 50 þúsund tonna aukningar á kvótanum sé ekki enn gengin vestur úr. Ákveðnar fréttir séu um loðnu fyrir Suðausturlandi og Suðurlandi og ekki sé ástæða til að ætla annað en þar sé hluti af þessum 50 þúsund tonnum. Hún sé heldur ekki komin eins langt í þroska. Ekki hafi fengist vísbendingar um það mikið magn að ástæða sé til að mæla aftur en því sé haldið opnu. „Við erum ekki búnir að loka kladdanum alveg,“ segir hann.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert