Hættulegasti kaflinn ekki tvöfaldaður

Sá kafli Suðurlandsvegar sem ráðist verður í að tvöfalda samkvæmt nýkynntum viðauka við samgönguáætlun er ekki sá kafli vegarins þar sem flest banaslys verða. Ágúst Mogensen, forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa, segir að sé horft á veginn út frá umferðaröryggi sé þetta því ekki rétt forgangsröðun á tvöföldun.

„Flest banaslys sem við höfum kannað á Suðurlandsvegi á undanförnum árum verða rétt utan við Reykjavík og upp að Litlu kaffistofunni. Eftir að vegurinn í Svínahrauni kom datt út mikill slysakafli við þrengslavegamótin en Hellisheiðin hefur verið til friðs hvað banaslys varðar. Það hafa síðan verið slys á kaflanum þegar komið er niður Kambana frá Hveragerði til Selfoss.“

58 látist frá 1972

Alls hafa 58 manns látist af slysförum á Suðurlandsvegi frá árinu 1972, þar af létust fjórir á síðasta ári. flest þeirra banaslysa, eða 20 talsins, hafa orðið á kaflanum frá Rauðavatni að Sandskeiði, þar sem tvöföldun vegarins á að hefjast samkvæmt viðbótum við samgönguáætlun. Sex banaslys urðu á Þrengslaveginum áður en að 2+1 vegurinn yfir Svínahraun var tekinn í notkun sumarið 2005 en ekkert slíkt hefur orðið þar síðan. Þá hafa þrjú banaslys átt sér stað í Kömbunum rétt áður en komið er að Hveragerði en níu á veginum þaðan og til Selfoss.

Hægt að auka öryggi meira

„Afstaða Umferðarstofu er sú að það hefði verið hægt, á skemmri tíma, að auka öryggi mun fleiri vegfarenda á lengri vegarkafla með því að fara út í að gera 2+1 veg heldur en er í raun verið að gera þarna,“ segir Einar Magnús Magnússon, verkefnastjóri umferðaráróðurs og fjölmiðlunar hjá Umferðarstofu. „Samhliða því hefði verið hægt að huga að næsta skrefi sem væri þá 2+2 vegur. Með því erum við ekki gagnrýna þessa framkvæmd heldur fögnum henni vegna aukins öryggis.“

Hann segir að Umferðarstofa vilji að fjármagni sé alltaf varið með þeim hætti að öryggi vegfarenda sé haft í fyrirrúmi. „Það eru skiptar skoðanir á því hvernig sú forgangsröðun á að vera. Við höfum til dæmis séð að það eru ekki síður áríðandi úrbætur nauðsynlegar á Vesturlandsvegi. Það er ýmislegt sem hægt er að gera til að auka öryggi vegfarenda með ekki svo miklum tilkostnaði og við hefðum gjarnan viljað sjá fjármagni varið til þessa.“

Í hnotskurn
58 manns hafa látist í banaslysum á Suðurlandsvegi frá 1972. 20 slysanna urðu á kaflanum frá Rauðavatni að Sandskeiði. Níu þeirra urðu á veginum milli Hveragerðis og Selfoss. Hvorugur þessara kafla verður tvöfaldaður í framkvæmdinni sem var kynnt í gær. Um ellefu þúsund bifreiðar fara um Suðurlandsveg á hverjum degi.
mbl.is