Ólafur Ragnarsson látinn

Ólafur Ragnarsson
Ólafur Ragnarsson

Ólafur Ragnarsson bókaútgefandi lést í gær á líknardeild Landspítalans, 63ja ára að aldri. Ólafur fæddist á Siglufirði 8. september 1944. Hann stofnaði bókaforlagið Vöku 1981, sem síðar varð Vaka-Helgafell. Hann var framkvæmdastjóri þess og síðar stjórnarformaður Eddu-miðlunar. Í desember var Ólafur gerður að heiðursfélaga í Félagi íslenskra bókaútgefenda.

Ólafur var lykilmaður í auknum vinsældum verka Halldórs Laxness eftir að forlag hans Vaka keypti Helgafell árið 1985, en Helgafell hafði verið útgefandi verka Nóbelsskáldsins frá því á fimmta áratugnum.

Ólafur skrifaði samtalsbók við Gunnar Thoroddsen, forsætisráðherra, 1981. Hann ritstýrði og skráði skýringar með efni bókanna Frelsi að leiðarljósi, úrvali úr ræðum Gunnars Thoroddsens, 1982, og greinasafni Halldórs Laxness, Af menníngarástandi, 1986. Ólafur tók saman og ritaði ásamt Valgerði Benediktsdóttur, bókina Lífsmyndir skálds sem fjallar um æviferil Halldórs Laxness og var gefin út á níræðisafmæli hans, 1992. Var einn þriggja ritstjóra Íslensks þjóðsagnasafns, fimm binda safnverks um íslenskar þjóðsögur, sem út kom árið 2000.

Skrifaði bókina Halldór Laxness – Líf í skáldskap, sem gefin var út 2002, þegar öld var liðin frá fæðingu skáldsins og  bókina Halldór Laxness – Til fundar við skáldið, sem kom út haustið 2007.

Í mars á þessu ári kom út fyrsta ljóðabók Ólafs, Agnarsmá brot úr eilífð. Ólafur er ennfremur höfundur fjölda viðtala og greina í blöðum og tímaritum.

Ólafur lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands 1963. Hann stundaði nám í gerð sjónvarpsefnis og kvikmynda hjá sjónvarpsstöðvum í Danmörku og Svíþjóð 1966 og við Syracuse-háskóla í New York-ríki í Bandaríkjunum 1973.

Ólafur var kennari við Barnaskóla Siglufjarðar 1964-1965. Blaðamaður á Alþýðublaðinu 1965. Fréttamaður og dagskrárgerðarmaður hjá Sjónvarpinu 1966-1976. Ritstjóri dagblaðsins Vísis 1976-1980.

Stofnaði ásamt eiginkonu sinni bókaforlagið Vöku 1981 og var framkvæmdastjóri þess og síðar (frá 1985) Vöku-Helgafells til 1999. Stjórnarformaður Vöku-Helgafells 1999-2000. Stjórnarformaður Eddu – miðlunar og útgáfu hf., 2000-2002. Ólafur var annar stofnenda Bókaforlagsins Veraldar, 2005.

Eftirlifandi eiginkona Ólafs er Elín Bergs og eiga þau tvo syni, Ragnar Helga og Kjartan Örn.

 


Viðurkenningar:        

Riddarakross Oranje-Nassau orðunnar hollensku 16. júní 1994.

Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 2006.

Heiðursfélagi Félags íslenskra bókaútgefenda, 15. nóvember 2007.


mbl.is