Eldra fólk kaupir á netinu

Margir kaupa bækur erlendis frá gegnum Amazon eða fleiri verslanir …
Margir kaupa bækur erlendis frá gegnum Amazon eða fleiri verslanir á netinu.

„Netverslun Íslendinga hefur aukist um helming síðan 2002 og eru kaupendur orðnir fjölbreyttari, t.d. nýta konur og eldra fólk sér þann verslunarmöguleika æ meira. Raunar kaupir eldra fólkið meira en unga fólkið í sumum flokkum netverslunar, t.d. bókar það meira flug í gegnum netið,“ segir Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Hann kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar á netverslun á morgunverðarfundi Rannsóknasetursins og Samtaka verslunar og þjónustu á Grand Hóteli í gær.

Erlent frekar en íslenskt

„Þegar netverslun Íslendinga er skoðuð sést að þeir versla mest við erlendar vefverslanir, sérstaklega bandarískar. Það er ljóst að þar hefur gengið mikið að segja, svo að salan snarminnkar þegar gengið er óhagstætt eins og núna.

Í samanburði við nágrannaþjóðir okkar erum við eina þjóðin þar sem velta innlendra netverslana hefur dregist saman en samdrátturinn í veltu íslenskra netverslana hefur numið 37% frá árinu 2005 á meðan hún hefur aukist um svipað hlutfall t.d. í Svíþjóð,“ segir Emil.

Jafnframt segir hann Íslendinga eiga langt í land með að versla jafnmikið á netinu og nágrannar okkar sem má t.d. sjá á því að hlutfall netverslunar af heildarsmásölu hér á landi er tífalt og jafnvel tuttugufalt minna en annars staðar á Norðurlöndum.

Bónus og erlendur markaður

Þó að velta innlendra netverslana hafi dregist saman minnir Emil á að sumar íslenskar netverslanir eru að gera það mjög gott. T.d. selur Bláa lónið mikið til útlanda og nammi.is, sem í byrjun seldi aðallega sætindi til Íslendinga í útlöndum, er nú mest að selja sælgæti til útlendinga erlendis enda komið með vefsíðu á ensku.

„Þær sem gera það gott eiga það sammerkt að hafa herjað á erlendan markað og fólk hefur einhvern ávinning af því að versla við þær, t.d. lægra verð,“ segir Emil.

Netverslun er oft aukabúgrein hjá íslenskum fyrirtækjum og áætlar Emil að innlendar netverslanir séu um 300 talsins.

Versla þær með allt milli himins og jarðar, s.s. hestavörur, ilmkerti, almanök og sjófatnað.

„Flestar netverslanir selja tónlist og bækur, t.d. bókaforlögin og ýmsir sem selja sérbækur, svo sem sjálfshjálparbækur eða bækur um sérstök hugðarefni,“ segir hann.

Í hnotskurn
Skoðanakönnun meðal almennings sem Hagstofan hefur gert árlega síðan 2002 þar sem m.a. er spurt um netnotkun og netverslun. Er það hluti af Eurostats sem öll ESB-ríkin taka þátt í. Gerð var könnun á meðal 170 íslenskra netverslana. Einnig voru notaðar upplýsingar um veltu af netverslun frá Valitor og Kreditkortum ehf. ásamt upplýsingum um fjölda póstsendinga frá Íslandspósti.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert