Náttúrutónleikar Bjarkar ná langt út fyrir landsteinanna

 Í gærmorgun varð það ljóst að sjónvarpsstöðin National Geographic hefur samþykkt að senda beint út um allan heim frá Náttúrutónleikunum í Laugardalnum á morgun. Baráttuöskur Bjarkar til verndunar íslenskrar náttúru mun því bergmála langt út fyrir landsteinanna.

En það eru fleiri að syngja baráttusöngva, því í gær sleppti Ólöf Arnalds, er spilar á milli Bjarkar og Sigur Rósar, splunkunýju lagi á netið. Það heitir Af Stað og er afar vel heppnað til samsöngs.

„Já, það var pælingin, þetta er svona smá slagari,“ segir Ólöf Arnalds. „Þetta leitaði á mig í byrjun vikunnar. Þetta gerðist ofsalega hratt. Það var alveg glænýtt þegar ég tók það upp. Ég ákvað bara að gefa málstaðnum lagið þar sem það er búið til sérstaklega fyrir þessa tónleika.“

Áhugasamir geta nálgast lagið, endurgjaldslaust, á slóðinni www.nattura.info/Olof_Arnalds_AfStad.mp3.

Sjálfboðaliða vantar

Tónleikahaldarar auglýstu svo í gær eftir sjálfboðaliðum til þess að vinna á tónleikunum á laugardag.

„Við þurfum fólk frá 18 ára og eldri við uppsetningu á tjöldum sem þurfa að rísa í dag og á laugardag,“ segir Margrét Vilhjálmsdóttir leikkona sem er einn af skipuleggjendum tónleikanna. „Þar verða náttúruverndarsamtökin með sín athvörf. Þarna verða líka vörukynningar frá Fair Trade, Hljómalind, Villimey og fleiri náttúruvænum hliðum.“

Einnig þarf að búa til vegvísiskilti sem hengja á upp um allan dalinn með upplýsingum um staðsetningar fyrir veitingar, salerni og annað slíkt. Áhugasamir geta sent póst á natturainfo@gmail.com.

Sigur Rósar-lundur

Samtökin Sól á Suðurlandi, er berjast gegn frekari virkjun á Þjórsá, gróðursettu á laugardag á svæðinu 1001 bjarkir og nokkrar harðgerðar rósir til heiðurs listamannanna. Vigdís Finnbogadóttir gaf garðinum þrjár háar bjarkir. Eina fyrir pilta, aðra fyrir stúlkur og þá þriðju fyrir öll ófæddu börnin. Garðurinn hlaut nafnið Sigur Rósar-lundur.
mbl.is