Paul Ramses farinn af flugvellinum

Atieno með Fidel, mánaðargamlan son hennar og Pauls
Atieno með Fidel, mánaðargamlan son hennar og Pauls mbl.is/Árni Sæberg

Búið er að flytja Paul Ramses frá flugvellinum að nokkurs konar búðum þar sem fleiri í svipaðri aðstöðu og hann búa. Ítalska lögreglan virtist hissa þegar íslensku gæslumennirnir afhentu hann þarlendum yfirvöldum á flugvellinum.

Paul Ramses, sem kemur frá Kenía,var fylgt af lögreglu til London og þaðan  til Ítalíu. Ramses flúði upphaflega frá Naíróbí í Kenýa en þar sætti hann ofsóknum. Hann sótti hér um landvistarleyfi en var synjað. Kona Ramses, Rosemary Atieno Athiembo, og mánaðargamall sonur eru enn hér á landi.

Rosemary Atieno Athiembo, eiginkona Pauls, heyrði í manni sínum um kvöldmatarleytið í kvöld. Sagði hann henni að íslensku gæslumennirnir hefðu afhent sig ítölsku lögreglunni á flugvellinum í gær. Hann sagði henni enn fremur að ítalska lögreglan hefði virst mjög hissa á að verið væri að koma með hann til landsins.

Paul sagði að búið væri að flytja hann frá flugvellinum að byggingu þar sem fyrir væru aðrir flóttamenn í svipaðri stöðu og hann sjálfur. Honum hafði þá verið tjáð að þarna myndi hann vera næstu þrjár vikurnar. Hann hafði enga hugmynd um hvenær mál hans myndi verða tekið fyrir eða hvert hann færi eftir að þessar þrjár vikur væru liðnar.

Rosemary sagði að hljóðið í manni sínum hefði verið betra en þegar hún talaði við hann síðast og að hann hefði ekki gefið upp vonina um að fá að koma til hennar aftur á Íslandi.

Paul gaf Rosemary upp númer þar sem hún gæti náð í hann en það hefur hún ekki gert þrátt fyrir að hafa hringt ítrekað í kvöld.

Rosemary sagðist vera mjög þakklát og hrærð yfir þeim stuðningi sem hún fyndi fyrir frá Íslendingum. Kona ein hefði sent sér tuttugu þúsund krónur eftir að hafa lesið um aðstæður sínar og einnig hefði hún fengið peninga frá Rauða krossinum. Sér hefði líka verið sagt að hann myndi veita henni frekari aðstoð.

„Þakka ykkur öllum kærlega fyrir. Ég kann virkilega að meta þennan hlýhug og stuðning,“ sagði Rosemary að lokum.

Paul Ramses
Paul Ramses
mbl.is