Óvissuástand hjá Paul Ramses

Mánaðargamall sonur Pauls Ramses Odour er hér í fanginu á …
Mánaðargamall sonur Pauls Ramses Odour er hér í fanginu á móður sinni Rosemary Atieno Athiembo, sem er stödd á Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg

Rosemary Atieno Athiembo, eiginkona Paul Ramses Odour, sem var vísað úr landi af Útlendingastofnun sl. fimmtudag, segir að enn ríki mikil óvissa varðandi framtíðina og örlög fjölskyldunnar. Rosemary ræddi síðast við eiginmann sinn í gær og segir að hann eigi fund með ítölsku lögreglunni í dag.

Hún segir að Paul hafi verið órólegur þegar þau töluðu saman símleiðis í gær, en hann er nú staddur á stofnun þar sem fólk í hans stöðu er vistað tímabundið í Rómarborg. Hann átti að ræða við lögregluna í dag  sem fyrr segir en ekki liggur fyrir hvert framhaldið verður. 

Aðspurð segist Rosemary eiga von á því að heyra í lögmanni sínum hér á Íslandi í dag. „Ég bíð eftir að heyra hvert næsta skref verði,“ segir hún.

Þakkar stuðninginn

Fjölmenni kom saman við dómsmálaráðuneytið í síðustu viku til að mótmæla því að Paul yrði vísað úr landi. Aðspurð segist Rosemary finna fyrir miklum stuðningi hér á landi og segir að hún og Paul séu afar þakklát.

„Ég vil þakka öllum sem hafa stutt okkur. Við erum afar þakklát. Þrátt fyrir að fólkið þekki okkur ekki er það reiðubúið að fórna tímanum sínum og orku til að styðja við bakið á okkur,“ segir Rosemary í samtali við mbl.is.

Paul Ramses Odour.
Paul Ramses Odour.
mbl.is