Enn engin kæra komin til dómsmálaráðuneytis

Paul Ramses
Paul Ramses

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir að engin kæra hafi borist frá Katrínu Theoórsdóttur, lögfræðings, Pauls Ramses, til dómsmálaráðuneytisins í dag. Katrín boðaði kæruna í gær, að því er segir á vef dómsmálaráðherra.

Á vef Björns kemur fram að í  fyrsta sinn síðan 3. júlí, þegar málið, sem kennt er við Paul Ramses frá Kenýa, kom til opinberrar umræðu, var það rætt á stjórnmálavettvangi í dag.

„Í morgun fór ég yfir staðreyndir málsins á fundi ríkisstjórnarinnar. Síðdegis sátu fulltrúar útlendingastofnunar og ráðuneytisins fund allsherjarnefndar alþingis.

Í gær skýrði Katrín Theodórsdóttir lögfræðingur frá því, að hún mundi kæra ákvörðun útlendingastofnunar til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Kæran barst ekki í dag.

Ég sagði hins vegar við fjölmiðlamenn eftir ríkisstjórnarfundinn, að innan ráðuneytisins yrði farið yfir málið frá upphafi til enda. Ég sagði einnig, þegar um var spurt, að ég hefði ekki komið að ákvörðun útlendingastofnunar og ekki vitað um hana, áður en hún var tekin. Þegar ég var spurður á þann veg, hvort ég hefði staðið að henni, sagðist ég ekki svara spurningum í viðtengingahætti.

Um nokkurra daga skeið hefur verið ráðist að mér, eins og ég hefði tekið þessa ákvörðun útlendingastofnunar. Er það jafnrakalaust og svo margt annað, sem um þetta mál hefur verið sagt á opinberum vettvangi. Ég hef ekki sagt neitt efnislega um málið og geri ekki, fyrr en í úrskurði ráðuneytisins, verði hans óskað. Ég kaus jafnframt að segja almennt sem minnst um málið að öðru leyti, þar til ég hefði haft tækifæri til að kynna sjónarmið mín á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Nú hefur málið bæði verið rætt í ríkisstjórn og allsherjarnefnd alþingis og hafa stjórnmálamenn fengið vitneskju um gang þess og einnig hefur þeim gefist færi á að ræða aðra þætti eins og Dublinreglurnar, en ég hallast að því að nota það orð framvegis um það, sem ýmist er nefnt Dyflinnarsamkomulagið eða Dublinsamkomulagið.

Meginregla þessara reglna er, að þeim, sem biður um hæli, skuli vísað til þess lands, þar sem hann kom fyrst inn á Schengensvæðið, hitt er er „derogation“ samkvæmt reglunum, að dvalarríki lands fjalli um hælisbeiðni. Ég skil ekki enn, hvernig Eiríkur Bergmann Einarsson, Evrópufræðimaður í háskólanum á Bifröst, skuli halda fast við að framkvæma eigi þessar reglur með vísan til þess, sem er „derogation“. Er það kenning hans að reka eigi alþjóðasamninga á undanþáguákvæðum? Það kann að falla að þeirri skoðun hans, að Íslendingar fái einskonar undanþágu-aðild að Evrópusambandinu, en stenst einfaldlega ekki, þegar grannt er skoðað," skrifar Björn Bjarnason

Sjá nánar á vef Björns Bjarnasonar 

mbl.is

Bloggað um fréttina