Ekki nægur lundi fyrir þjóðhátíð

Lundi með síli.
Lundi með síli. mbl.is/Sigurgeir

Hætt er við því að lundaát muni í ár ekki skipa þann sess á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sem venja er. Nýliðun í stofninum hefur ekki verið sem skyldi síðustu ár og hafa lundaveiðimenn í Vestmannaeyjum því haldið að sér höndum.

„Það verður ekki búið að veiða nóg fyrir þjóðhátíð,“ segir Magnús Bragason, lundaverkandi í Vestmannaeyjum. „En ég er að vinna í því að fá lunda frá Grímsey. Það er því hugsanlegt að Grímseyingar bjargi þjóðhátíðinni í ár.“

Enn minna af lunda en í fyrra

Í fyrra var byrjað að veiða lunda í Vestmannaeyjum 1. júlí. Þá náðist ekki að veiða nóg fyrir þjóðhátíð, segir Magnús. Nú hafi lundaveiðin hins vegar ekki hafist fyrr en 10. júlí og fyrstu dagana á eftir var vindáttin ekki hagstæð til veiða. Framundan séu hins vegar góðar aðstæður. „En það munar um þessa 10 daga af um 30 dögum sem veitt er fram að þjóðhátíð.“

Hann segir að þótt ekki hafi verið veiddur nægur lundi fyrir þjóðhátíð í fyrra, hafi flestir fengið að smakka eitthvað, sérstaklega þeir sem sýndu fyrirhyggju. „Þannig að það er um að gera að tryggja sér lunda sem fyrst.“

Yngstu sílin vantar

Nýliðun lunda í Vestmanneyjum hefur verið lítil síðan 2005. Ástæðan er talin sú að yngstu árganga hefur nánast vantað í sílastofninn, segir Erpur Snær Hansen, líffræðingur hjá Náttúrustofu Suðurlands. Pysjuungar nærist að mestu á innan við ársgömlum sílum.

Hann segir tveggja og þriggja ára lunda hafa verið um 70% af veiðistofninum, en þessa árganga vanti nánast alfarið í stofninn. „Þegar 70% af veiðistofninum vantar er sjálfgefið að veiðin minnki.“

Erpur segir enn óvíst hvernig nýliðun í lundastofninum gangi í ár. Fundað verði með Bjargveiðifélaginu næsta sunnudag og ákveðið hvort veiðum verður haldið áfram.

Í hnotskurn
Nýliðun lunda í Vestmannaeyjum hefur verið óvenjulítil undanfarin ár, líklega vegna sílaskorts. Í skýrslu Náttúrustofu Suðurlands frá í vor segir að ráðlegt sé að friða lundann í sumar eða draga verulega úr veiðum.
mbl.is

Bloggað um fréttina