Milljónamæringar í Fellunum

Lottóvinningshafarnir frá Taílandi sem unnu 65 milljónir í Lottó eru 29 ára hjón með þrjú lítil börn sem búa í Fellahverfi í Breiðholti.

Jakkapong Srichakan og Penporn Theehakde kynntust fyrir fimm árum á Íslandi þegar þau unnu hörðum höndum hjá fyrirtækinu Matfugli í Mosfellsbæ. Núna eru þau milljónamæringar.

Jakkapong hefur alltaf keypt tvo seðla í Víkingalottó og tvo seðla í Laugardagslottó. Annan fyllir hann út sjálfur en hinn lætur hann vélina um að fylla út. Það var vélin sem hitti naglann á höfuðið í þetta sinn.

Penporn starfar enn hjá Matfugli en hann vinnur hjá Myllunni. Þrátt fyrir vinninginn hefur engin breyting orðið á atvinnumálum þeirra og það hvarflar ekki að þeim að hætta að vinna.

Það hefur verið stöðugur gestagangur síðan fréttist um vinninginn enda á Jakkapong stóra fjölskyldu á Íslandi. Jakkapong og Penporn ætla að meðal annars að nota vinninginn til að hjálpa fjölskyldu og vinum.  Þau eru að byggja hús í Taílandi, fyrir sig sjálf og börnin þrjú og móður Penporn.

Penporn starfaði við að selja ávexti og grænmeti á markaði í Tælandi áður en hún kom hingað til lands. Hana langar nú að rækta og selja sína eigin ávexti og búa til skiptis í húsinu í Tælandi og á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina