Verkfalli aflýst

Verkfalli aflýst í bili
Verkfalli aflýst í bili Kristinn Ingvarsson

„Við munum tala fyrir þessari tillögu við félagsmenn, svo er það í höndum þeirra að meta það,“ segir Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands (LMFÍ). Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari hefur lagt fram miðlunartillögu þar sem lausn á kjaradeildu ljósmæðra var ekki í sjónmáli.

Ekki má upplýsa um innihald miðlunartillögunnar en Guðlaug segir að LMFÍ hafa ákveðið að aflýsa þriggja sólarhringa verkfalli sem átti að hefjast á miðnætti og fresta meðferð félagsdómsmáls um lögmæti uppsagna ljósmæðra. „Ef miðlunartillagan verður samþykkt falla niður boðuð verkföll,“ segir Guðlaug.

Rafrænar kosningar fyrir félagsmenn LMFÍ hefjast á hádegi á morgun og lýkur á hádegi á föstudag. 

„Í mínum huga er þetta algert neyðarúrræði,“ segir Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari. Ekki sé algengt að leggja fram miðlunartillögu en það sé gert þegar nauðsyn sé talin bera til. Aðeins einu sinni áður hefur Ásmundur á fimm ára ferli sínum sem ríkissáttasemjari lagt fram slíka tillögu.

Nú munu báðir samningsaðilar draga sig í hlé en Ásmundur segir að gert sé ráð fyrir að þeir skili niðurstöðum sínum til hans á hádegi á föstudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina